Svipmynd af viðburði sem tók þátt í verkefninu síðasta sumar. Ljósm. ssv.is

Styðja við viðburðadagskrá á Vesturlandi

Stjórn Sóknaráætlunar Vesturlands hefur ákveðið að styðja við viðburðadagskrá á Vesturlandi 2021. Þetta verkefni er unnið í framhaldi af svipuðu verkefni sem hleypt var af stokkunum með stuttum fyrirvara á síðasta ári og skipti miklu máli fyrir viðburðahald á Vesturlandi sumarið 2020.

„Við trúum því að nú fari að létta „kóvinu“ en vegna Covid-19 hefur kreppt verulega að bæði hjá aðilum sem starfa í menningu og listum og einnig hjá ferðaþjónustuaðilum. Verkefninu er því ætlað að styðja bæði við skapandi greinar og listafólk á Vesturlandi en einnig að efla menningarstarf og listviðburði til að laða fólk að landshlutanum og styðja þannig við ferðaþjónustu á svæðinu og bæta lífsgæði íbúa sem geta notið viðburðanna,“ segir í tilkynningu frá Sóknaráætlun Vesturlands.

Verkefnið er sett upp sem samstarfsverkefni en ekki styrktarsjóður, þar sem þeir sem hafa áhuga á að setja upp einsskiptis viðburð á Vesturlandi geta óskað eftir samstarfi við SSV og Markaðsstofu Vesturlands (MSV) varðandi það viðburðahald. Samstarfið felst í því að MSV skráir viðburðinn í viðburðadagatal Vesturlands og kynnir hann á sínum miðlum. En einnig er hægt að óska eftir fjárframlagi til viðburðahaldsins í samstarfssamningnum. Stýrihópur SSV/MSV um viðburðadagskrá á Vesturlandi 2021 mun fjalla um öll verkefni sem óskað er eftir samstarfi um og gera tillögu að samstarfssamningi vegna þeirra viðburða sem falla að þessu verkefni. „Hvort sem aðili starfar í skapandi greinum, ferðaþjónustu eða vill bara leggja sitt að mörkum inn í viðburðadagskrána á Vesturlandi, þá getur hann fyllt út beiðni um samstarf, þar sem gerð er grein fyrir þeim viðburði sem viðkomandi vill standa fyrir. Tillagan er þá tekin til umfjöllunar inn í viðburðadagskrár teymi SSV/MSV þar sem tekin er ákvörðun varðandi mögulegt samstarf um viðburðinn.

Nánari upplýsingar um viðburðaskrá Sóknaráætlunar má finna hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir