Opið fyrir umsóknir til þátttöku á listahátíðinni Plan B

Plan B Art Festival er alþjóðleg listahátíð sem haldin er árlega í Borgarnesi og nágrenni. Hátíðin mun fara fram helgina 5.-8. ágúst næstkomandi og er þetta sjötta árið í röð sem hún fer fram. Opnað hefur verið fyrir umsóknir til þátttöku og geta listamenn sent inn tillögur, ferilmöppur og ferilskrá til miðnættis 4. maí næstkomandi. Á síðasta ári bárust um 180 umsóknir frá flestum heimshornum og voru 18 verk og verkefni valin til að taka þátt. Áhugasamir geta sent umsókn á planbartfestival@gmail.com en allar upplýsingar eru að finna á planbfestival.is.

„Við erum í raun að kljást við ákveðið lúxusvandamál því hátíðin er orðin það þekkt og vinsæl að við fáum mikið af umsóknum þennan skamma tíma sem umsóknarferlið er opið,“ segir Logi Bjarnason, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar í samtali við Skessuhorn. „En það er líka gríðarlega skemmtilegt þegar við förum að skoða tillögurnar og sjáum hvað kemur upp úr hattinum,“ bætir hann við. Spurður hvort ákveðið þema verði á hátíðinni segir hann svo ekki vera. „Við ákváðum að hafa þetta alveg opið,“ segir Logi. Sýningar hátíðarinnar eru alla jafnan settar upp í yfirgefnum húsum í Borgarnesi eða nágrenni og verða verkin valin út frá þeim stöðum sem sýningarnar verða settar upp á.

Hátíðin síðasta sumar var aðeins lituð af Covid-19 faraldrinum en að sögn Loga er undirbúningsnefnd Plan B við öllu búin. „Ef við erum ekki með plan b þá er ekkert Plan B,“ segir Logi og hlær. „Í fyrra vorum við með gluggagallerí og streymi á netinu. Það er alltaf hægt að finna lausnir og það má segja að Covid hafi bara fært hátíðina á nýja staði,“ segir hann og bætir við að þau séu viðbúin hverju sem er nú í sumar. „Það er sama hvað á okkur dynur, við erum þá bara með plan c og svo framvegis, allt nema plan a,“ segir Logi Bjarnason.

Líkar þetta

Fleiri fréttir