Laugargerðisskóli.

Opið bréf frá starfsfólki Laugargerðisskóla

Í dag var starfsdagur í Laugargerðisskóla í Eyja- og Miklaholtshreppi og börn því heima. Eins og fram kom í frétt í síðasta Skessuhorni ríkir mikil óvissa um framtíð skólahalds vegna rakavandamála í húsnæði og gruns um heilsuspillandi myglu. Á fundi hreppsnefndar síðastliðinn þriðjudag var ákveðið vegna hækkandi rekstrarkostnaðar við skólann og rakavandamála í húsnæði að varpa ákvörðun um framtíð skólahalds til starfsfólks. Í ályktun hreppsnefndar sagði: „Hreppsnefnd samþykkti samhljóða að um leið og starfandi skólastjóri staðfestir við oddvita að grunur sé um veikindi barna og starfsfólks tengt húsnæði skólans verði skólanum lokað og börnum ekið í Lýsuhól.“

Almennir starfsmenn Laugargerðisskóla sendu í framhaldi af starfsmannafundi í dag frá sér opið bréf vegna skólamála í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Bréfið er svohljóðandi:

„Starfsfólk í Laugargerðisskóla vill með þessu bréfi lýsa opinberlega yfir vonbrigðum sínum á ófaglegum vinnubrögðum sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps, sem einkennast af vanrækslu viðhalds og launung upplýsinga. Allt það ferli sem nú hefur átt sér stað, og hefur leitt til þeirrar stöðu sem uppi er í dag, einkennist af samskipta- og virðingarleysi gagnvart skólanum sjálfum, nemendum, starfsfólki og þorra íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Undanfarin þrjú ár hefur skólastjóri Laugargerðisskóla ítrekað haft samband við sveitarstjórn og lýst yfir áhyggjum sínum á ástandi húsnæðisins vegna skemmda, raka og sýnilegrar myglu. Eins og fram hefur komið hefur því ekki verið svarað eða sinnt. Starfsfólk skólans hefur á undanförnum mánuðum lýst yfir miklum áhyggjum af heilsu sinni og nemenda sem hefur nú leitt af sér að bæði að starfsmaður og nemandi hafa fengið læknisvottorð uppá heilsubrest sem rekja mætti til ástands húsnæðisins í Laugargerði.

Starfsfólk hefur margoft óskað eftir að funda með sveitarstjórn og fá niðurstöður úr sýnatökum um myglu, sem þegar hafa verið gerðar. Öllum þeim köllum eftir upplýsingum hefur verið svarað með afvegaleiðandi og misvísandi skilaboðum ásamt því að öllum beiðnum um fundi hefur verið frestað, af ýmsum ástæðum. Nú síðast í morgun frestaði oddviti því aftur að funda með starfsfólki um málið. Þrátt fyrir að staðan sé orðin sú að seint í gærkveldi var ákveðið af sveitarstjórn að nemendur myndu ekki mæta til skóla í dag og þar af leiðandi er þetta mál komið langt framyfir það að samtal þurfi að eiga sér stað.

Helsta upplýsingaveita starfsfólks skólans um málið hefur verið í gegnum grein sem skrifuð var í Skessuhorn 14. apríl 2021. Þar komu fram upplýsingar sem hafði verið kallað eftir af starfsfólki, en ekki veittar, og því mikið áfall að fá þær svo með þessum hætti en ekki í gegnum samskipti beint milli sveitarstjórnar og starfsfólks skólans eins og eðlilegt væri.

Starfsfólk vill því að lokum ítreka vonbrigði sín með þá stöðu sem upp er komin. Laugargerðisskóli hefur undanfarin ár verið með öflugt skólastarf sem einkennist af fjölbreyttum kennsluaðferðum, einstaklingsmiðuðum markmiðum fyrir fjölbreyttan nemendahóp og góðu samstarfi starfsmanna. Ungt fólk hefur bæst í starfsmannahópinn og flutt í hreppinn með þá framtíðarsýn að búa hér, sinna starfi sínu af heilindum og standa vörð um þetta hjarta og fjöregg sem barnaskólar eru í hverju samfélagi. En því miður hefur það farið svo að þetta góða starf hefur verið leyst upp og kæft niður af þeirri vanrækslu, valdnýðslu og starfsháttum sem hafa viðgengist í sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps.“ Undir bréfið ritar starfsfólk í Laugargerðisskóla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir