Rafhlaupahjól. Ljósm. af Facebooksíður Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Barn dróst í veg fyrir bíl með rafhlaupahjóli

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir frá því á Facebook síðu sinni að tíu ára barn á rafhlaupahjóli, frá hjólaleigunni Hopp, hafi ekki valdið hjólinu að fullu vegna stærðar og þyngdar þess. Dróst barnið með hjólinu út á götuna og munaði hársbreidd að barnið yrði fyrir bíl. Samkvæmt reglum Hopp þurfa leigutakar að vera 18 ára og eldri til að mega leigja hjól hjá fyrirtækinu.

Rafhlaupahjól verða æ vinsælli í umferðinni og notendur þeirra eru á öllum aldri. Með hækkandi sól birtast rafhlaupahjólin nú á götum bæja og víðar. Þá verður sífellt algengara að ökumenn slíkra rafhlaupahjóla aki of hratt og virði umferðarreglur að vettugi. Lögreglan hvetur foreldra til þess að ræða þetta við börn sín, brýna fyrir þeim að þau megi ekki leigja þessi hjól og eins að gæta ávallt varúðar við hjólreiðar og að nota alltaf reiðhjólahjálma.

Samgöngustofa hefur tekið saman helstu atriði varðandi notkun vélknúinna hlaupahjóla og öryggi. Þar segir meðal annars: „Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst.“  Enn fremur segir: „Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.

Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna. Þá ber að athuga að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga samkvæmt lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir