Veitur gefa út bókina Cloacina sem fjallar um sögu fráveitu

Bókin Cloacina – Saga fráveitu er komin út á vegum Veitna, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Í þessari bók rekur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega hundrað ár. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk bókina afhenta á þeim slóðum er forsíðumynd hennar er tekin, sem er í námunda við hið fornfræga almenningssalerni í borginni, Núllið í Bankastræti. Forsíðumyndin sýnir opna skólprennu við hlið vatnsbrunns í Bankastræti. „Af umhverfisástæðum var bókin prentuð í litlu upplagi. Hún er hins vegar öllum aðgengileg gjaldfrjálst á vef Veitna, veitur.is/cloacina, auk þess sem eintökum verður dreift til skóla og bókasafna,“ segir í tilkynningum frá Veitum.

Gyðja hreinlætis

Heiti bókarinnar er dregið af rómverskri gyðju sem ríkti yfir aðalræsi borgarinnar eilífu, Cloaca Maxima, og var hún gyðja hreinlætis. Þó að fólk tengi klóakið við óþrif þá er öflug fráveita, ásamt heilnæmri vatnsveitu, grundvöllur hollra samfélaga. Fráveitur eru fokdýr mannvirki og því hefur lagning þeirra oft á tíðum staðið í stjórnvöldum og almenningi. Í bókinni rifjar Guðjón upp ástand heilbrigðismála í höfuðstaðnum meðan skólp rann í opnum rennum eða bara eftir götunum sjálfum og tildrög og sögu þeirra miklu ræsa sem leystu skítalækina af hólmi.

Verkefni Veitna frá 2006

Veitur tóku við uppbyggingu og rekstri fráveitu í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð árið 2006. Þá þegar höfðu verið reistar öflugar dælu- og hreinsistöðvar í Reykjavík, sem einnig taka við skólpi frá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar og hreinsa það. Í bókinni rekur Guðjón þá uppbyggingu og þau umskipti sem orðið hafa á síðustu árum í fráveitumálum sveitarfélaganna tveggja á Vesturlandi auk Kjalarness. Þeir eru ófáir milljarðarnir sem varið hefur verið til þeirra umbóta en, eins og áður, er langstærsti hluti þessara miklu fráveitumannvirkja neðanjarðar og ósýnilegur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir