Ljósm. Thelma Harðardóttir

Haförn með aðsetur í Norðurárdal – sendir umsögn með videói

Fjölmargir íbúar hafa sent inn athugasemdir vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi á Grjóthálsi í Borgarbyggð, þar sem landeigendur tveggja jarða stefna að uppbyggingu vindmyllugarðs með allt að sex stórum vindmyllum. Skessuhorni barst afrit af erindi sem Thelma Harðardóttir á Skarðshömrum í Norðurárdal sendi sveitarstjórn vegna athugasemda hennar við fyrirhugaða skipulagsbreytingu. Myndbandið sýnir haförn sem hefur haldið sig í Norðurárdal síðan árið 2015. „Þeir hafa oftar en ekki verið tveir á ferð ernirnir og sækja hér fæðu. Fyrsti fuglinn sem birtist 2015 hafði hér vetursetu og var greinilega ungur enda frekar smár. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þeim fjölgað í tvo og stundum þrjá sem í dag eru fullstálpaðir. Það kemur því eflaust að því að hér hefjist varp, fái svæðið að halda ákjósanleika sínum fyrir fuglana og sé haldið óbreytt,“ skrifar Thelma í athugasemd sem hún sendi inn vegna hugsanlegrar uppbyggingu vindmyllugarðs á Grjóthálsi.

Þá segir hún hafernina hafa vakið mikla lukku meðal hemamanna og bendir á að bæði hafernir og fálkategundir séu í hættu í umhverfi vindmylla en það sýni rannsóknir sem gerðrar hafa verið í öðrum löndum. „Það er mín ósk að þið setjið lífríkið og ánægju heimamanna í fyrsta sæti við þessa ákvörðun ykkar. Við sem veljum að búa í Borgarbyggð og greiða hér útsvarið okkar veljum þennan búsetukost í fyrsta og síðasta lagi vegna þess að hér höfum við gullfallega ósnerta náttúru og fjörugt lífríki. Ykkur ber að standa vörð um það sem heimamenn vilja,“ skrifar Thelma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir