Tilboð Borgarbyggðar í hús Arion banka samþykkt

Arion banki hefur gengið að kauptilboði Borgarbyggðar í húsnæði bankans við Digranesgötu 2 í Borgarnesi. Þetta staðfesti Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, í samtali við Skessuhorn í gær. „Það eru þó fyrirvarar á tilboðinu eins og um ástandsskoðun á húsinu en við vonum að þetta komi allt vel út,“ segir Þórdís. Þá segir hún Borgarbyggð gera ráð fyrir að Arion banki verði einnig áfram með starfsemi í húsinu. Aðspurð segir hún nokkrar hugmyndir á lofti um skipulag í húsinu og að lagt verði upp með að rýmið verði innréttað á þann hátt að það henti starfsemi ráðhússins. „Við erum að fara úr gömlu húsnæði sem ekki var hannað fyrir okkar starfsemi yfir í húsnæði sem við munum innrétta sem best að störfum okkar og það er mjög spennandi,“ segir Þórdís. „Þetta er heppilegt hús sem rúmar starfsemi ráðhússins og gæti ýtt undir meiri teymisvinnu hjá starfsfólki en þar er einnig hægt að hafa góða aðstöðu til að taka á móti skjólstæðingum í næði. Við erum mjög spennt fyrir þessum breytingum,“ bætir hún við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir