Laugargerðisskóli.

Óvissa um framhald skólastarfs í Laugargerði

Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps á Snæfellsnesi glímir þessa dagana við fjölþætt vandamál. Snúa þau m.a. að samskiptavanda, þungum rekstri sveitarsjóðs og rakavandamálum í grunn- og leikskólanum í Laugargerði.

Rakavandamál hafa orsakað slæm loftgæði í skólahúsinu. Mygla hefur þó ekki verið staðfest með óyggjandi hætti eftir sýnatöku Verkís á staðnum, en einkenna engu að síður orðið vart bæði hjá bæði nemendum og starfsfólki skólans, sem benda til að heilsuspillandi mygla gæti verið til staðar í húsnæðinu. Sveitarstjórn boðaði til aukafundar í gærmorgun. Þar var ákveðið að leggja það í hendur starfsfólks Laugargerðisskóla hvort áfram verði kennt í skólahúsinu. Í bókun sem samþykkt var segir: „Sveitarstjórn tekur alvarlega allar ábendingar frá starfsfólki og ef það staðfestir veikindi sem rekja má til myglu er sveitarstjórn búin að fá inni fyrir nemendurna í Lýsuhólsskóla í Snæfellsbæ til loka skólaárs. Sveitarfélagið myndi þá sjá um að aka nemendum Laugagerðisskóla í Lýsuhólsskóla. Þeim yrði þannig gert kleift að ljúka skólaárinu þar ef ekki verður unnt að starfa í skólahúsinu vegna veikinda barna og starfsmanna. Komi til þessa þarf deildarstjóri Lýsuhólsskóla u.þ.b. eina viku til að undirbúa komu barnanna,“ segir í bókun hreppsnefndar. Hreppsnefnd samþykkti samhljóða að um leið og starfandi skólastjóri staðfestir við oddvita að grunur sé um veikindi barna og starfsfólks tengt húsnæði skólans verði skólanum lokað og börnum ekið í Lýsuhól.

Þröng fjárhagsstaða

Um síðustu áramót voru 119 íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi og hefur þeim fækkað á liðnum misserum. Í Laugargerðisskóla eru 14 börn á grunnskólaaldri og þar af tíu þeirra úr hreppnum, en fjögur koma úr Kolbeinsstaðarhreppi með samningi við Borgarbyggð. Auk þess eru tíu börn í leikskóladeild Laugargerðisskóla. Áætlað er að rekstur Laugargerðisskóla muni kosta 105 milljónir króna á þessu ári, en heildartekjur sveitarsjóðs eru áætlaðar 155 milljónir. Rekstur skólans tekur því til sín 67% af áætluðum heildartekjum sveitarsjóðs og horfir sveitarstjórn fram á taprekstur verði ekki við brugðist. Í fundargerð hreppsnefndar frá því í gærmorgun segir að ljóst sé að endurskipulagning á skólahaldi í Laugargerðisskóla hafi dregist úr hömlu. „Til að tryggja áframhaldandi skólahald í Laugargerðisskóla verður að skera niður rekstrarkostnað um að minnsta kosti 30–40 milljónir króna á ársgrundvelli. Það næst ekki nema gerðar verði grundvallarbreytingar á starfseminni og eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi okkur til ráðgjafar í þeirri vinnu. Fyrir liggur að kostnaður af rekstri skólans hefur í nokkur ár verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.“ Loks segir: „Að mati sveitarstjórnar er því brýn þörf fyrir hendi til að grípa inn í rekstur skólans.“

Sýni tekin og tvö gefa vísbendingar um myglu

Þá segir í fundargerð hreppsnefndar að unnið hafi verið markvist að því að viðhalda húsnæði Laugargerðisskóla undanfarin ár t.d. með því að afleggja vatnsrör í veggjum og setja ný, sem og aðrar framkvæmdir. „Markmiðið var að ljúka stórum viðhaldsverkefnum á árinu 2021. Í framkvæmdunum hafa m.a. falist mælingar á hugsanlegri myglu í skólahúsinu en sveitarstjórn bað um þær til þess að henni myndi ekki yfirsjást eitthvað í þeim miklu framkvæmdum sem framundan eru. Mælingarnar eru í höndum verkfræðistofunnar Verkís sem einnig var falið að leggja mat á kostnað við viðgerðir ef mygla myndi greinast.“ Vísað er til tölvupósts frá Verkís frá 12. apríl sl. þar sem segir m.a: „Tvö sýni af þrjátíu sýndu hækkuð gildi en það er eðlilegt fyrir húsnæði í þessum aldursflokki. Vakin er athygli á því að Verkís tekur ekki sýni af rakaskemmdum byggingarefnum, heldur er hvatt til fjarlægingar/viðgerða á skemmdum byggingarefnum eftir því sem við á. Ef sýni væru tekin beint af rakaskemmdum byggingarefnum væri tíðni skemmda hærri. Sýnataka er gerð til þess að meta hvort gró séu að dreifa sér utan skemmds svæðis eða í nágrenni þess. Hér virðist það ekki raunin og því má ætla að megninu til sé um hefðbundið viðhaldsverkefni um að ræða,“ segir í niðurstöðu Verkís.

Ekki ríkt traust

Loks ber að nefna að kali hefur ríkt m.a. í samskiptum oddvita og skólafólks. Tveir af fimm fulltrúum í fræðslu- og skólanefnd hafa sagt af sér á liðnum dögum, þær Sigurbjörg Ottesen fráfarandi formaður skólanefndar og Veronika Sigurvinsdóttir. Í drögum að minnispunktum sveitarstjórnar sem kynnt voru í gær segir: „Þrátt fyrir fækkun nemenda hefur rekstrarkostnaður skólans aukist síðustu ár. Því er brýnt að sýna mikið aðhald við rekstur skólans. Í því skyni verður að ríkja samstaða og traust milli sveitarstjórnar og starfsmanna skólans.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir