Hermann Daði Hermannsson yfirsmiður til vinstri og Unnsteinn Elíasson. Hér standa þeir við fyrstu sökkulmótin sem bíða þýðu svo hægt verði að steypa í þau.

Mikil eftirspurn eftir nýjum lóðum og húsum í Húsafelli

Framkvæmdir eru hafnar við nýtt fjörutíu húsa hverfi í Húsafelli í Borgarfirði. Skessuhorn greindi ítarlega frá þessu verkefni í nóvember síðastliðnum, en síðan hefur verið haldið áfram með undirbúning að verkefninu þannig að menn yrðu „klárir í bátana,“ þegar formleg kynning hæfist. Um nýliðin mánaðamót hófst svo formleg markaðssetning húsa og lóða og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið framar vonum, miklum mun meiri eftirspurn en eigendur þorðu nokkurn tímann að vona.

Bergþór Kristleifsson og Hrefna Sigmarsdóttir. Framan við þau eru teikningar af svæðinu og þremur húsgerðum, en þau hafa tekið á móti tugum áhugasamra gesta frá því 1. apríl síðastliðinn þegar verkefnið var formlega kynnt.

„Við renndum þannig lagað blint í sjóinn með viðtökur, en svo virðist sem við höfum kynnt þetta verkefni á hárréttum tíma og ýmsar aðstæður í þjóðfélaginu verið okkur hliðhollar. Allavega höfum við nú á tíu dögum, frá því verkefnið var kynnt, tekið frá eða selt 30 af þeim 40 lóðum sem í boði eru á þessu skilgreinda svæði. Þá erum við einnig að bjóða til sölu 14 lóðir þar nærri, en með öðrum skipulagsskilmálum og hefur meirihluti þeirra nú verið seldur. Við höfum ekki enn náð að svara öllum fyrirspurnum sem borist hafa frá því við kynntum verkefnið 1. apríl síðastliðinn. Við höfum nú tekið á móti tugum gesta; áhugasömum kaupendum sem vilja eignast fasteign hér í Húsafelli,“ segir Bergþór Kristleifsson í samtali við blaðamann síðastliðinn föstudag. Bergþór og Hrefna Sigmarsdóttir eiginkona hans eiga og reka Ferðaþjónustuna Húsafelli og hafa staðið í ströngu síðustu daga við upplýsingagjöf um verkefnið. „Þetta er í raun mikið púsluspil, margir áhugasamir um þær 54 lóðir sem settar voru í sölu um mánaðamótin. Við förum með fólkinu um svæðið, sýnum því lóðirnar, kynnum þær húsagerðir sem eru í boði, tökum frá og sumir staðfesta strax kaup,“ segir Hrefna þegar hún ekur með blaðamanni um nýja hverfið. „Við byrjuðum framkvæmdir við hönnun á húsum á síðasta ári, en vegi höfðum við lagt áður. Nú er búið að taka fimm fyrstu húsgrunnana og verið að slá upp fyrir sökklum á þeim. Við reiknum svo með að fyrstu húsin verði fokheld næsta haust, en að verkefnið í heild taki þetta tvö til þrjú ár,“ segja þau Hrefna og Bergþór. Síðastliðinn mánudag voru 40 af þeim 54 lóðum sem í boði eru seldar eða fráteknar.

Ítarlega er fjallað um verkefnið í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bayeux og Borgarnes

Það var góð tilfinning að koma í Landnámssetur Íslands síðastliðinn fimmtudag og finna þar aftur fullt hús af menningarþyrstum leikhúsgestum.... Lesa meira