Umdeilt frumvarp um lífeyrismál

Í síðustu viku lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign. Óhætt er að segja að afar skiptar skoðanir séu um frumvarpið og meðal annarra hafa verkalýðsforingjarnir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, brugðist harkalega við og mótmælt því sem fram kemur í frumvarpinu. Það sem verkalýðsforingjarnir hafa verið ósáttir við er aðallega þrennt; að launþegum beri að greiða í lífeyrissjóð frá 18 ára aldri í stað 16 ára, að verðbætur á lífeyri reiknist árlega í stað mánaðarlega eins og nú er og undanþágu frá 15,5% lífeyrisgreiðslu fyrir þá sem eru með öðruvísi kjarasamninga. Síðasta atriðið snertir aðallega sjómenn sem bera munu skarðan hlut frá borði.

Þá eru Vilhjálmur og Ragnar afar ósáttir við að stéttarfélögin hafi ekki verið höfð með í ráðum við undibúning frumvarpsins heldur telja að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafi talið það hlutverk sitt að semja alfarið um lífeyrismál. Vilhjálmur segir það hins vegar skýrt í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að stéttarfélög ráði sínum málefnum sjálf og að samningsumboðið liggi hjá stéttarfélögum en ekki ASÍ. Á Facebook síðu Vilhjálms segir hann meðal annars: „Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir launafólk og því hefur félagið falið lögmanni VLFA að stefna ASÍ og Samtökum atvinnulífsins sem segja að samningsumboð stéttarfélaganna nái ekki yfir lífeyrismál í kjarasamningum.  Slíkt þvaður hefur enga lagastoð.“

En forseti Alþýðusambands Íslands segir þetta málum blandið og ber af sér ávirðingar um að sambandið hafi átt hlut að máli varðandi frumvarpið. Morgunblaðið hefur í dag eftir Drífu: „Alþýðusambandið hefur gert alvarlegar athugasemdir við framkomið lífeyrisfrumvarp og það er ekki rétt sem sagt er í greinargerð að það hafi verið unnið í samráði við okkur.“ Þá hefur Morgunblaðið eftir Ragnari Þór að hann hafi ekki fengið fullnægjandi svör frá Drífu Snædal og að búið sé að kalla lífeyrisnefnd ASÍ saman næstkomandi þriðjudag vegna málsins.

Hlekkur á frumvarp fjármálaráðherra

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir