Slakað verður á samkomutakmörkunum á fimmtudaginn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur greint frá tilslökunum á samkomutakmörkunum og í skólastarfi sem taka gildi frá og með fimmtudeginum 15. apríl. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir skilaði inn tillögum til ráðherra í gær. Helstu breytingar eru þær að almennar fjöldatakmarkanir fara úr tíu í tuttugu manns. Sundstaðir og heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna að nýju með takmörkunum en aðeins verður heimilt að taka á móti 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Þá verður að nýju heimilt að stunda íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum en þó án áhorfenda. Hámarksfjöldi fullorðinna í íþróttum verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi. Skíðasvæði verða opnuð að nýju og þar má taka á móti 50% af hámarksfjölda eftir móttökugetu hvers svæðis.

Sviðslistir verða heimilar að nýju með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða. Við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verða áfram 30 manna takmarkanir en 100 manns mega vera við útfarir. Verslunum verður heimilt að taka á móti fimm viðskiptavinum á hverja tíu fermetra en þó að hámarki 100 manns í einu, auk 20 starfsmanna í sama rými. Skemmtistaðir, barir, spilasalir og spilakassar mega opna að nýju en með sömu skilyrðum og á veitingastöðum sem heimila áfengisveitingar, þ.e. að hafa opið til kl. 22:00 og taka á móti gestum til kl. 21:00 og að hámarki 20 gestir í rými. Verklegt öku- og flugnám með kennara verður heimilt.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vinnur að gerð nýrrar reglugerðar um takmörkun á skólastarfi í samvinnu við Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. En þar verða í meginatriðum óbreyttar reglur nema nálægðarmörk fara úr tveimur metrum í einn og leik- og grunnskólabörnum verður heimilt að stunda íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir