Lögregla innsiglaði í dag iðnaðarhúsnæði í Brákarey. Ljósm. Skessuhorn.

Iðnaðarhúsnæði innsiglað

Leigutakar við Brákarbraut 25-27 í Borgarnesi urðu eins og kunnugt er að hætta starfsemi í húsnæðinu í Brákarey eftir að alvarlegar athugasemdir byggingafulltrúa og eldvarnaeftirlits Borgarbyggðar um ágalla á brunavörnum lágu fyrir í byrjun febrúar. Það var gert til að tryggja öryggi og heilsu þeirra sem hingað til hafa haft starfsemi þar. Var leigutökum gert að rýma húsnæðið frá og með 13. febrúar. Allflestir leigutakar urðu við því að leggja strax niður starfsemi þar til úr ágöllum hefði verið bætt. Eigandi iðnfyrirtækis í eyjunni hefur mótmælt lokuninni og bent á að tilskipunin sem slík hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og því sé hann ekki bundinn af henni. Þá sé starfsemin með öll tilskilin leyfi eins og lög gera ráð fyrir. Einhver starfsemi hefur því verið á hans vegum í húsnæðinu síðan fyrrgreind lokun var fyrirskipuð í febrúar. Nú hefur húsnæðið á hans vegum verið innsiglað af lögreglu.

„Eina lausnin til að jafnt gangi yfir alla sem hafa starfsemi í húsunum í Brákarey var að loka með lögregluvaldi og var það gert í dag,“ sagði Bjarni Kr Þorsteinsson slökkviliðsstjóri í samtali við Skessuhorn síðdegis í dag. „Eldvarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var nýverið fengið til að sannreyna úttekt eldvarnafulltrúa Borgarbyggðar og byggingafulltrúa. Niðurstaða úttektar HMS var samhljóða henni. Því var í samstarfi við eigendur húsanna og lögfræðing ákveðið að láta innsigla húsnæðið þannig að starfsemi fari þar ekki fram fyrr en búið verður að funda með leigjendum og bæta úr þeim ágöllum sem eru á brunavörnum í húsunum.“ Bjarni bætir því við að skýrsla Verkís um úttekt á húsnæðinu verði tekin fyrir á næsta fundi byggðarráðs Borgarbyggðar og í framhaldinu fundað með öllum leigutökum í húsunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir