Telja óhætt að vera í skólahúsinu út þetta skólaár

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag voru raka- og mygluvandamál sem staðfest hafa verið í húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar til umræðu. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, formaður byggðarráðs, lagði fram bókun f.h. meirihluta sveitarstjórnar: „Meirihluti leggur áherslu á að búið sé að gera allar þær varúðarráðstafanir sem lagðar hafa verið til af sérfræðingum í myglumálum og komið hefur fram að óhætt er að vera í húsnæðinu út þetta skólaár. Nú þegar búið er að fá heildarskýrslu um ástand húsnæðisins í hendurnar er hægt að taka ákvörðun til framtíðar um húsnæðið á staðnum. Færanlegar kennslustofur eru væntanlegar fljótlega sem mun koma þeim til góða sem eru á því svæði sem verst er farið og ekki ráðlegt að laga með bráðabirgðaaðgerðum á því húsnæði,“ segir í bókun meirihluta sveitarstjórnar.

Minnihlutinn í sveitarstjórn bókaði einnig um skólahúsið á Kleppjárnsreykjum. Þar segir meðal annars að ljóst sé á þeirri úttekt sem gerð hefur verið að mikil rakamyndun er í húsnæðinu öllu og aðstæður heilsuspillandi fyrir nemendur og starfsmenn skólans. „Ekki er hægt að tryggja að þær mótvægisaðgerðir sem farið hefur verið í til að bregðast við ástandinu séu fullnægjandi til að tryggja heilsu þeirra sem þar starfa til framtíðar. Undirrituð telja ekki forsvaranlegt að láta fólk dvelja í húsnæðinu fyrr en búið er að uppræta alla myglu og rakaskemmdir,“ segir í bókun Framsóknarflokks í sveitarstjórn. Í henni er sömuleiðis vitnað í skýrslu Eflu um ástand húsnæðisins: „Það virðist mjög misjafnt hversu lengi fólk þarf að dvelja í rakaskemmdu húsnæði þangað til það finnur til einkenna. Gróflega má áætla að fjórðungur þeirra sem dvelja í slíku húsnæði þrói með sér krónísk einkenni og bólguviðbrögð. Dvöl í rakaskemmdu húsnæði er aldrei æskileg til langs tíma þar sem enn er ekki að fullu ljós áhrif á heilsu né langtímaáhrif þeirra efna sem um ræðir. Þá er ekki eingöngu verið að líta til þeirra sem finna til einkenna heldur hópsins í heild.“ Þá bókuðu framsóknarmenn í sveitarstjórn að mikilvægt sé að nemendur og foreldrar hafi val um það hvort þeir kjósi að skólastarfinu verði komið fyrir í gámum á skólalóð, eða að þeim verði boðið að sækja nám í grunnskólanum á Varmalandi eða í Borgarnesi. „Þá er mikilvægt að fyrir liggi fyrir lok þessa skólaárs upplýsingar um tímaramma og hvernig áformum um endurbætur á húsnæðinu verði háttað.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir