Laugargerðisskóli.

Segir af sér formennsku í fræðslu- og skólanefnd

Sigurbjörg Ottesen hefur sent opið bréf til sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps, fjölmiðla og fleiri aðila þar sem hún tilkynnir tafarlausa afsögn sína úr embætti formanns nefndarinnar. Bréf Sigurbjargar er svohljóðandi:

„Undirrituð hefur tekið ákvörðun um að segja af sér sem formaður fræðslu- og skólanefndar hér í sveit og óskar hér með eftir lausn frá nefndarstörfum hið fyrsta.

Eins og staðan er í stjórnsýslu sveitarfélagsins þá sé ég mér ekki fært að starfa í nefnd er heyrir undir sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps og tel ég mér skylt að gera sveitungum mínum og öðrum venslurum Laugargerðisskóla grein fyrir þessari ákvörðun minni og ástæðum hennar.

Að mínu mati hafa nokkrir af kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn framið stjórnsýslulagabrot og brot á samþykktum um stjórn sveitarfélagsins. Afturvirkar fjárhagslega íþyngjandi aðgerðir er snúa m.a. að barnafólki sveitarfélagsins, framkoma við starfsfólk Laugargerðisskóla og framkoma við foreldra leik- og grunnskólabarna í Laugargerðisskóla þykir mér óásættanleg. Framkoma oddvita með valdníðslu, hræðsluáróðri, alveg hreint ótrúlegum afsökunum, vantrausti, tregum svörum og svo lengi gæti ég talið upp. Ofangreint gerir það að verkum að ég hef ekki nokkurn áhuga á, né vilja til, að starfa fyrir hönd sveitarfélagsins á meðan þorri sveitarstjórnar situr við völd. Ég skammast mín fyrir framkomu meirihluta sveitarstjórnar við barnafólk í Eyja- og Miklaholtshreppi og nágrannasveitarfélags sem kemur að Laugargerðisskóla og við aðra íbúa.“

Hjarðarfelli, 12. apríl 2021

Virðingarfyllst,

Sigurbjörg Ottesen.

ES: Afrit af þessu bréfi hefur verið sent á alla fulltrúa í Fræðslu- og skólanefnd Eyja- og Miklaholtshrepps, sviðsstjóra fjölskyldusviðs hjá Borgarbyggð og ritstjórn Skessuhorns, auk fleiri fréttamiðla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir