Áskell Þórisson og Laufey Dóra dóttir hans við fyrstu þrjá kjólana. Ljósm. Eygló Gunnarsdóttir.

Fyrrum ritstjóri haslar sér völl í kjólaframleiðslu

Áskell Þórisson, fyrrum ritstjóri og upplýsingafulltrúi, sem býr á Ægissíðu í Hvalfjarðarsveit, hefur undanfarin misseri unnið að nýju verkefni sem er talsvert ólíkt þeim fyrri. Eins og margir vita er Áskell liðtækur ljósmyndari en sú þekking nýttist honum vel í fyrri störfum á Bændablaðinu og víðar. „Ég hef verið að dunda mér við að taka ljósmyndir og nú er búið að koma þeim á kjóla,“ segir Áskell býsna hróðugur. „Á meðfylgjandi mynd eru þrír fyrstu kjólarnir sem Eygló Gunnarsdóttir kennari og saumakona á Akranesi saumaði fyrir mig og hana dóttur mína, Laufeyju Dóru, en hún er með mér í þessu kjólabrasi. Eygló er núna í startholunum og ætlar að bæta við safnið,“ segir Áskell og bætir því að það sé ungur fatahönnuður, Sunna Dís Hjörleifsdóttir, sem eigi heiðurinn af kjólasniðunum.

Á myndunum sem prentaðar eru á þessa fyrstu þrjá kjóla eru jurtir og loftbólur í gegnum ís. „Ísmyndirnar tók ég hjá Skarðsheiði, klakinn var í Berjadalsá og mig minnir að kjóllinn með blómunum eigi rætur sínar á Hellisheiði. Sumsé íslensk náttúra á íslenskum kjólum! Allt er þetta gert á eins umhverfisvænan hátt og er mögulegt,“ segir Áskell. „Enn sem komið er að minnsta kosti verðum við að láta prenta þetta á efni í Bretlandi, en ég fann enga prentsmiðju með réttar græjur og umhverfisvæn kjólaefni hér á Íslandi. En ég er ánægður að verkefnið er komið þetta langt og er orðið áþreyfanlegt, eða efnislægt ef svo má segja. Þá er ég þakklátur Uppbyggingarsjóði Vesturlands sem stóð þétt við bakið á okkur við hönnun og framleiðslu. Án hjálpar sjóðsins hefðum við aldrei lagt út á hin hálu tískusvell,“ segir ritstjórinn fyrrverandi og nýi kjólahönnuðurinn að lokum.

Nánar er hægt að skoða ljósmyndir Áskels Þórissonar á vefsíðunni www.askphoto.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir