Hallsteinn Sveinsson. Ljósm. Guðmundur Guðmarsson.

Ný Verk og Plan B í Safnahúsi

Listamenn úr héraði, ungt fólk á uppleið og handverk úr safneign er meðal þess sem sýnt verður í Hallsteinssal Safnahússins í Borgarnesi á árinu, samkvæmt nýbirtri sýningaráætlun hússins. Að sögn Guðrúnar Jónsdóttur safnstjóra hafa ekki verið haldnar formlegar sýningaropnanir á árinu vegna sóttvarna en fólk er hvatt til að kynna sér dagskrána á vef Safnahúss og samfélagsmiðlum.

„Menningarstarf sækir heldur í sig veðrið með hækkandi sól enda mikils virði fyrir fólk að geta notið menningar þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Safnahúsið í Borgarnesi hefur nú birt sýningaáætlun sína fyrir árið 2021 og þar má sjá ýmis verkefni á sviði lista og menningararfs. Sýningarnar fara fram í Hallsteinssal sem nefndur er eftir listvininum og upphafsmanni Listasafns Borgarness, Hallsteini Sveinssyni.

Sýningaráætlunin er fjölbreytt að vanda og á árinu munu prýða veggi Hallsteinssalar verk af ýmsum toga, eftir listamenn úr héraði sem og fólk víðsvegar af landinu. Árið hófst á sýningu verka eftir ungu listamennina Jónsa og Lúkas og var það verkefni á vegum hlaðvarpsins Myrka Íslands undir stjórn Sigrúnar Elíasdóttur. Núverandi sýning var opnuð 29. mars og ber heitið Ný verk. Þar sýnir listakonan Sigríður Ásgeirsdóttir olíumyndir. Þar á eftir heldur Inga Stefánsdóttir sína fyrstu sýningu og síðar sýnir Viktor Pétur Hannesson grasagrafísk verk. Í ágúst sýna þátttakendur í Listahátíðinni Plani B og þar á eftir verða sýnd verk eftir Ásu Ólafsdóttur og Jóhönnu Jónsdóttur.  Í árslok verður á dagskrá textílsýning úr safneign undir sýningarstjórn Katrínar Jóhannesdóttur og stendur sú sýning langt fram á næsta ár. Undanfarið hefur ekki verið um formlegar sýningaropnanir að ræða í Safnahúsinu vegna sóttvarna en ávallt er tekið mið af aðstæðum hverju sinni og er sýningaráætlunin einnig birt með fyrirvara um breytingar vegna aðstæðna. Þess má geta að Safnahús er virkt á samfélagsmiðlum og með heimasíðuna www.safnahus.is þar sem finna má margs konar fróðleik,“ segir Guðrún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir