Lýstu yfir vantrausti á meirihluta þrátt fyrir jákvæða rekstrarniðurstöðu

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir síðasta ár var lagður til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær. Samkvæmt ársreikningi sveitarfélagsins var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 113 milljónir króna. Áætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A og B hluta yrði neikvæð um 191 milljón króna. Afkoman er því rúmum 300 milljónum króna betri en áætlun hafði gert ráð fyrir. Þessa jákvæðu niðurstöðu má m.a. rekja til aukinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en þau voru 154 milljónum hærri en áætlað var, og þess að útsvar, fasteignaskattur og aðrar tekjur voru 67 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir. Þá var rekstrarkostnaður sveitarfélagsins, lífeyrissjóðsskuldbinding og fjármagnskostnaður lægri en gert hafði verið ráð fyrir.

„Er þetta niðurstaðan þrátt fyrir stór og flókin verkefni síðast liðið árið og eru mörg sveitarfélög sem þurfa að takast á við nokkurn hallarekstur,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar. Þá segir hún niðurstöðuna ekki síst skýrast af góðum aðhaldi í rekstri. „Ljóst er að ekki hefði náðst þessi árangur nema að tryggilega sé haldið utan um rekstarliði. Rekstrargjöld eru heldur lægri en gert var ráð fyrir í áætlun ársins sem þýðir að tekjuaukning skilar sér í bættri afkomu sveitarfélagsins sem gerir því kleift að takast áfram á við krefjandi aðstæður komandi misseri,“ segir Lilja Björg.

Frávik í framkvæmdakostnaði

Þá kemur fram í ársreikningi frávik í framkvæmdakostnaði umfram samþykktar fjárhagsáætlanir og eru gerðar athugasemdir við það í endurskoðunarskýrslu KPMG. Að sögn Lilju Bjargar má frávikið aðallega rekja til þess að farið var í endurnýjun á eldra húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. „Þær framkvæmdir voru mun kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir í upphafi m.a. vegna fallinna raka og mygluskemmda,“ segir Lilja og bætir við að þrátt fyrir að hafa farið fram úr áætlunum voru teknar þær ákvarðanir að koma í veg fyrir frekari skemmdir á húsnæðinu og fullvinna húsið en það mun skila sér í minna viðhaldi næstu árin. Athugasemd KPMG er að ekki hafi verið gerður viðauki nægjanlega fljótt til að bregðast við þessum auknu útgjöldum. „Sveitarfélagið þurfti þó ekki að bregðast við auknum framkvæmdakostnaði með lántöku umfram það sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í áætlun með viðaukum,“ segir hún og bætir við að e.t.v. hefði verið betra að gera viðaukann á undan.

Lýstu vantrausti

Minnihlutinn dró fram þessa athugasemd á fundinum í gær og ákvað að lýsa vantrausti á meirihlutann. En sú tillaga var afgreidd og felld. „Það skýtur ansi skökku við að minnihlutinn ákveði við þessar aðstæður að lýsa yfir vantrausti á meirihlutann en slíkum úrræðum á ekki að beita af léttúð. Sérstaklega þar sem þau vita fullvel að tillagan verði felld enda hefur samstarf meirihlutans aldrei verið sterkara. Lítur þetta út eins og  máttlaus tilraun til þess að draga athyglina frá góðri niðurstöðu í ársreikningi. Það sem stendur upp úr í ársreikningum er góð rekstrarniðurstaða eða um 300 milljónum króna betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir og styrkir þetta okkur enn frekar í þeirri uppbyggingar og úrbótavinnu sem hefur verið í gangi,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir