Dalbrautarreitur á Akranesi. Mynd úr safni.

Breyting á deiliskipulagi Dalbrautarreits samþykkt

Ekki fallist á athugasemdir sem bárust

Bæjarstjórn Akraness auglýsti í lok síðasta árs tillögu að breytingu á deiliskipulagi Dalbrautarreits á Akranesi. Breytingin felst m.a. að í stað tveggja hæða með inndreginni þriðju hæð er gert ráð fyrir þremur hæðum með inndreginni fjórðu hæð meðfram Dalbraut, þar sem gafl fjórðu hæðar er 9 m. frá norðurgafli hússins. Nýtingarhlutfall lóðar verður 1,73 í stað 1,53. Engin breyting er gerð á skilmálum deiliskipulagsins.

Tillagan var til kynningar á heimasíðu Akraneskaupstaðar frá og með 2. janúar til og með 18. febrúar 2021. Voru þeir sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Tvær athugasemdir bárust við breytinguna þar sem meðal annars er lýst vonbrigðum með að fallið hafi verið frá breytingum sem gerðar voru á Dalbraut 6 á sínum tíma til þess að koma til móts við athugasemdir íbúa. Þá koma fram áhyggjur af aukinni umferð og auknu skuggavarpi vegna viðbótar hæðar á byggingunni.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 23. mars fyrirliggjandi greinargerð skipulagsfulltrúa Akraneskaupstaðar sem svör við þeim athugasemdum sem bárust við breytingum á deiliskipulaginu. Í greinargerðinni er ekki fallist á athugasemdirnar sem bárust. Bæjarstjórn Akraness samþykkti í kjölfarið deiliskipulagsbreytinguna á lóð við Dalbraut 6 og að breytingin verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir