: Skjaldborg var handhafa Eyrarrósarinnar 2020. Ljósm. Patrik Ontovik.

Nýtt fyrirkomulag Eyrarrósarinnar

Allt frá árinu 2005 hafa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair staðið saman að Eyrarrósinni; viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrirkomulag viðurkenningarinnar hefur verið með svipuðu sniði allt frá upphafi, en við endurnýjun samstarfssamnings í ár var ákveðið að endurskoða skipulagið með það í huga að styrkja Eyrarrósina enn frekar sem raunverulegan bakhjarl lista- og menningarlífs utan höfuðborgarsvæðisins. Samráð var haft við menningarfulltrúa á landsbyggðinni í því ferli.

Helstu breytingar á fyrirkomulagi verðlaunanna eru þær að Eyrarrósin verður hér eftir veitt annað hvert ár í stað hvers árs. Þá mun handhafa Eyrarrósarinnar framvegis verða boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð. Þá verður vandað stutt heimildamyndband framleitt um Eyrarrósarhafann og verðlaunafé aukið. Loks verða veitt þrenn 750 þúsund króna hvatningarverðlaun til nýrri verkefna. Hvatningaverðlaunin eru veitt verkefnum sem eru yngri en þriggja ára en eru sannarlega nýbreytni og/eða viðbót við lista- og menningarlíf síns svæðis. Fyrir utan verðlaunaféð fá verkefnin 100 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2021 og rennur umsóknarfrestur út 26. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar og hlekk á umsóknareyðublað má finna á www.listahatid.is/eyrarrosin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir