Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósm. úr safni.

Valdís Þóra hættir atvinnumennsku í golfi

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukona í golfi tilkynnti fyrr í dag á Facebook síðu sinni að atvinnuferli hennar í golfi væri lokið.

Í yfirlýsingu sinni segir Valdís Þóra frá ástæðum þess að hún hættir en stærstu ástæðuna segir hún vera þá að líkaminn þoli ekki meira. Hún lýsir þeim meðferðum sem hún hefur gengist undir síðastliðin ár og þeim stanslausa sársauka sem þeim hefur fylgt. Hún hafi náð að harka í gegnum vegna keppnisskaps, þrjósku og metnaðar.

Valdís Þóra fer fyrir allt það sem golfið hefur kennt henni, svo sem þolinmæði, samkennd og virðingu og að hún hafi upplifað mikla gleði og mikla sorg, stundum á sama tíma. Hún þakkar síðan ýmsum aðilum; þjálfurum, íþróttasálfræðingi, sjúkraþjálfurum og fleirum fyrir stuðninginn sem hún hefur fengið í gegnum árin.

Í lok yfirlýsingarinnar segir Valdís Þóra: „Golf hefur verið mitt líf og yndi allan sólarhringinn í svo mörg ár. Ég hef fórnað og gefið allt sem ég átti í þetta. Nú taka við nýir tímar. Þeir eru spennandi, stressandi og ögrandi allt á sama tíma. Vonandi einn daginn mun ég getað spilað golf aftur mér til gamans. Þangað til mun ég miðla reynslu minni til næstu kynslóðar og vonandi hjálpa þeim að komast jafn langt og ég og lengra. Og vonandi takið þið manneskjunni Valdísi Þóru opnum örmum, ég held ég sé alveg ágæt.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir