300 Þjálfun verður opnuð í nýrri aðstöðu þegar Þórólfur leyfir

Jón Einar Hjaltested, íþróttafræðingur og einkaþjálfari, eigandi 300 Þjálfunar á Akranesi, er að opna nýja aðstöðu við Suðurgötu 126, í sama húsnæði og Sjúkraþjálfun Akraness. Jón Einar lauk B.sc gráðu í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík sumarið 2017 og hefur síðan þá verið í fullu starfi að þjálfa á Akranesi. Hjá 300 Þjálfun er boðið upp á stöðvaþjálfun, einkaþjálfun eða þjálfun í smærri hópum. „Ég er fyrst og fremst með styrktarþjálfun. Það er aðeins um þrek- eða þolæfingar ef fólk óskar eftir því,“ segir Jón Einar í samtali við Skessuhorn.

„Eigendur Sjúkraþjálfunar Akraness buðu mér að vera með aðstöðu hér en ég var áður á Jaðarsbökkum. Þetta er mikið betri kostur fyrir mig, hagkvæmara og plássið nýtist betur í það sem ég er að gera,“ segir Jón Einar. „Sjúkraþjálfun Akraness hefur fullan aðgang að aðstöðunni og vonandi í framhaldinu get ég boðið upp á þjálfun fyrir þá sem eru að klára sjúkraþjálfun og þurfa á eftirfylgni að halda,“ segir hann. Spurður hvort fólk sé mikið að sækja í þjálfun á tímum Covid segir hann svo vera. „Þegar er opið hefur aðsóknin verið mjög góð en svo þegar við þurfum að hafa lokað hef ég verið með þjálfun í gegnum netið,“ segir Jón Einar og bætir við að hann sé þó almennt ekki að bjóða upp á fjarþjálfun. „Mér þykir alltaf best að hitta fólk og vinna með því,“ segir hann. En hvenær ætlar hann að opna nýju aðstöðuna? „Um leið og Þórólfur leyfir,“ segir Jón Einar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir