Slökkviliðsmenn úr Dölum á æfingu. Myndin tengist fréttinni því ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni Skessuhorns/sm.

Stórt útkall viðbragðsaðila vegna varðelds á Skógarströnd

Slökkvilið Dalabyggðar, ásamt sjúkrabíl úr Búðardal og lögreglu frá Stykkishólmi, var kallað út í forgangi klukkan ríflega tíu í gærkvöldi. Mikill eldur logaði á Skógarströnd og sást vel yfir fjörðinn frá Staðarfelli þaðan sem gert var viðvart. Hvorki hafði verið sótt um leyfi til að kveikja varðeld eða brennu á svæðinu og því var talin hætta á að hús væri að brenna. Að sögn Ívars Arnar Þórðarsonar slökkviliðsstjóra í Búðardal var tiltækur mannskapur slökkviliðsins kallaðar út. Í ljós kom að fólk hafði kveikt miðlungsstóra brennu í malargryfju án þess að hafa sótt um tilskilin leyfi til þess. Hús voru ekki nálæg og enginn í hættu.

Ívar Örn segir alltof algengt að fólk kveiki varðelda eða brennur án þess að sækja um leyfi til slíks eins og skýrt er kveðið á um í reglugerð. Það sé afar bagalegt í ljósi þess að brugðist er við eins og eðilegt má telja miðað við að mannvirki og jafnvel mannslíf gætu verið í hættu. Samkvæmt reglugerð er bannað að kveikja stærri eld en sem nemur einum rúmmetra efnis (timburs). Þó er engu að síður óskað eftir því að Neyðarlínu eða slökkviliðum viðkomandi svæða sé gert viðvart ef kveikja á í bálkesti af smæstu gerð. Í síðustu viku varð svipað tilvik á Suðurlandi þar sem slökkvilið fór í stórt útkall nærri Reykholti í Biskupstungum þar sem talið var að sumarhús væri að brenna. Í ljós hafi komið að kveikt hafði verið í sinu. Brot gegn ákvæðum laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Í frétt Vísis um brunann á Suðurlandi var haft eftir slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu að mögulega eigi sá sem kveikti eldinn yfir höfði sér kæru og rukkun fyrir kostnaðinum við útkallið, sem numið gæti hundruðum þúsunda króna.

Í reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum segir m.a.: „Óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en einum rúmmetra af efni.“

Sjá reglugerðina í heild sinni hér

Líkar þetta

Fleiri fréttir