Frábær veiði í Leirá og 60 flottir birtingar strax á fyrsta degi. Hér er Matthías Stefánsson með þann sem mældur var 90 cm. Ljósm. gb.

Stjarnfræðilegt mok í Leirá

„Þetta var eiginlega ótrúlegt mok. Í fyrra var fín veiði við upphaf sjóbirtingsveiðanna, en núna var þetta sannkölluð veisla,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir en hún, Stefán Sigurðsson eiginmaður hennar og Matthías sonur þeirra, veiddu alls 60 fiska í Leirá og var sá stærsti hvorki meira né minna en 90 sentimetra langur.

„Þessi veiði var eiginlega alveg með ólíkindum og fiskurinn var á í hverju kasti og veiddist á ýmsar flugur sem við buðum þeim. Stærsti fiskurinn var 90 sentimetrar, en nokkrir voru yfir 80, og síðan 70 til 75 og einungis örfáir litlir. Ég býst við að meðalstærðin hafi verið sirka 55-60 cm. Flestir fiskarnir voru vel haldnir og við slepptum þeim öllum aftur,“ sagði Harpa ennfremur í samtali við tíðindamann Skessuhorns.

Öllum fiski hefur verið sleppt síðan Harpa og Stefán tóku Leirá á leigu og hefur það greinilega haft sitt að segja fyrir ána.

Líkar þetta

Fleiri fréttir