Átta taka þátt í forvaldi hjá VG í Norðvesturkjördæmi

Átta, sex konur og tveir karlar, gefa kost á sér í fimm efstu sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi vegna forvals fyrir kosningarnar í haust. Forvalið verður rafrænt og stendur yfir dagana 23. – 25. apríl næstkomandi. Kosning hefst á miðnætti 23. apríl og stendur til kl. 17.00 sunnudaginn 25. apríl. Kosið verður um fimm efstu sæti á listanum og verður hún bindandi í efstu þrjú en í samræmi við forvalsreglur VG. Atkvæðisbærir í forvalinu eru þeir sem skráðir eru í flokkinn í kjördæminu tíu dögum fyrir kjörfund. Flokkurinn á nú einn þingmann í kjördæminu; Lilju Rafneyju Magnúsdóttur á Suðureyri. Hún gefur áfram kost á sér til forystu, en það gerir einnig Bjarni Jónsson fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði, en hann er jafnframt varaþingmaður í kjördæminu.

Eftirtaldir gefa kost á sér:

Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi í 1. sæti

Lárus Ástmar Hannesson, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi í 3.-5. sæti

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður í 1. sæti

María Hildur Maack, umhverfisstjóri í 3.-5. sæti

Nanný Arna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi í 3.-5. sæti

Sigríður Gísladóttir, dýralæknir í 2.-4. sæti

Þóra Magnea Magnúsdóttir, kennari í 2.-3. sæti

Þóra Margrét Lúthersdóttir, sauðfjár- og skógarbóndi í 2.-3. sæti.

Í tilkynningu frá flokknum segir að tveir rafrænir framboðsfundir verða haldnir og opnir öllum. Þeir verða laugardaginn 10. apríl kl. 12.00 og mánudaginn 19. apríl kl. 20.00. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, mun stýra fundunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir