Mun betri afkoma Borgarbyggðar en reiknað hafði verið með

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag var kynnt niðurstaða ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2020. Þar kemur fram að rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarsjóðs á árinu var jákvæð um 112 milljónir króna, sem er 303 milljónum króna betri afkoma en ráð hafði verið fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins, með viðaukum. „Bætt afkoma miðað við fjárhagsáætlun skýrist fyrst og fremst af hærri tekjum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en gert var ráð fyrir í áætlun, minni rekstrarkostnaði og lægri lífeyrissjóðsskuldbindingu,“ segir í bókun á fundi byggðarráðs. Þá var fjármagnskostnaður einnig lægri en ráð var fyrir gert.

Tekjur ársins voru 4.559 milljónir króna, launakostnaður var 2.590 milljónir og annar rekstrarkostnaður 1.549 milljónir. Framlegð nemur 333 milljónum, veltufé frá rekstri var 373 milljónir eða eða 8,2% af tekjum. Eigið fé Borgarbyggðar í árslok nam 4.478 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 47,5%. Byggðarráð vísaði ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar en næsti fundur hennar fer fram fimmtudaginn 8. apríl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir