Kynna veislutertur og gefa vænar sneiðar

„Það eru um það bil allar geymslur hjá okkur, bæði frystar og kælar, fullar af kökum sem við vorum búin að framleiða í aðdraganda ferminga á Pálmasunnudag og núna um páskana. Þessar kökur eru ýmist fullskreyttar eða tilbúnar fyrir skreytingu. Nánast öllum fermingarveislum var í síðustu viku frestað vegna samkomutakmarkana og sitjum við uppi með gríðarlega stóran lager af vörum sem við getum ekki selt og viljum ekki geyma of lengi,“ segir Sigríður Jóhannsdóttir bakarameistari hjá Bake it All the Way veisluþjónustunni við Skútuvog í Reykjavík í samtali við Skessuhorn. Í stað þess að farga veislutertunum ætla starfsmenn veisluþjónustunnar að leyfa íbúum nágrannasveitarfélaga að njóta og bjóða í dag skírdag upp á kynningu, smakk og munu auk þess gefa vænar sneiðar til fólks að taka með heim. „Fólk þarf að koma með diska og fær sýnishorn af framleiðsluvörum okkar, endilega kíkið við,“ segir Sigríður. Bakarar Bake it All the Way verða við Krónuna við Austurveg á Selfossi og á Krónuplaninu við Dalveg á Akranesi frá klukkan 11-13 í dag. Frá klukkan 13:30 verða bílarnir við Grillhúsið í Borgarnesi og verslun KF á Hellu. Verða þeir staddir þar frameftir degi eða meðan birgðir endast.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir