Hús Arionbanka við brúarsporðinn í Borgarnesi. Ljósm. mm.

Ákveða að falast eftir bankahúsi í Borgarnesi fyrir ráðhús

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var lögð fram skýrsla Eflu verkfræðistofu vegna könnunar á ástandi ráðhúss Borgarbyggðar við Borgarbraut 14 í Borgarnesi. Eins og greint hefur verið frá í fréttum Skessuhorns hefur verið óttast að rakaskemmdir í ráðhúsinu hafi leitt til myglu og húsnæðið því verið talið heilsuspillandi. Það hefur nú verið staðfest. Umræða um flutning á starfsemi ráðhússins hefur í nokkra mánuði verið í gangi og nú hefur formlega verið ákveðið að flytja starfsemina annað. Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur Arionbanki boðið Borgarbyggð húsnæðið til kaups samhliða ósk um að starfsmenn bankans fái áfram aðstöðu í hluta hússins.

Byggðarráð lagði á fundi sínum í gær til við sveitarstjórn að gert verði tilboð í hús Arionbanka við Digranesgötu 2 í Borgarnesi; „með það fyrir augum að húsið verði nýtt sem nýtt ráðhús en sömuleiðis fyrir aðra starfsemi sem gæti rúmast innan veggja húsnæðisins,“ eins og segir í bókun. Þá segir jafnframt: „Fyrirvari skuli gerður í slíku tilboði um ástandsskoðun og endanlegt samþykki sveitarstjórnar,“ segir í fundargerð byggðarráðs. Þórdísi Sif Sigurðardóttur sveitarstjóra var á fundi byggðarráðs falið að gera tilboð með framangreindum fyrirvörum og jafnramt falið að setja ráðhúsið að Borgarbraut 14 í söluferli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir