Þórdís Alda Sigurðardóttir, Anna Eyjólfs og Ragnhildur Stefánsdóttir í Akademíu skynjunarinnar.

Setja upp myndlistarsýningu á Ströndum, Dölum og Vestfjörðum

Myndlistarsýningin „Nr. 4 Umhverfing“ verður sett upp á Vestfjörðum, Ströndum og í Dalabyggð sumarið 2022. Um er að ræða fjórðu sýninguna í sýningaröð staðbundinna myndlistarsýninga um land allt. Sumarið 2019 var sýningin „Nr. 3 Umhverfing“ sett upp víðsvegar um Snæfellsnes þar sem 72 mismunandi listamenn sýndu verk sín og stefnir í að enn fleiri taki þátt í næstu sýningu. Þá hafa einnig verið haldnar sýningar á Sauðárkróki og á Egilsstöðum.

Það er Akademia skynjunarinnar sem sér um uppsetningu þessara sýninga en að Akademiunni standa myndlistarmennirnir Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær hafa í gegnum árin staðið að ýmsum listsýningum auk þess að gefa út bækur og reka gallerí. „Fyrir þessa sýningu okkar á Vestfjörðum, Ströndum og í Dalabyggð höfum við fengið til liðs við okkur Jón Sigurpálsson myndlistarmann á Ísafirði,“ segir Þórdís Alda í samtali við Skessuhorn.

Setja upp verk í sinni heimabyggð

„Markmið verkefnisins er að setja upp verk myndlistarmanna í þeirra heimabyggð, hvort sem þeir eru búsettir þar eða eiga ættir að rekja til svæðisins,“ segir Þórdís Alda. Sýningarnar verða settar upp um alla Vestfirði, Strandir og Dali í húsnæði sem ekki endilega er hefð fyrir að setja upp sýningar. „Við erum að mestu búin að velja aðal stöðvar sýningarinnar en svo getur alltaf verið að fólk hafi í huga ákveðna staði sem þeir vilji vera á, kannski staðir sem þeir tengjast persónulega. Þá er það í góðu lagi,“ segir Þórdís. „Það er svo gaman að sjá hversu margir hæfileikaríkir myndlistarmenn eru að störfum um allt land og við viljum endilega vekja athygli á því,“ bætir hún við.

Hægt að sækja um til 5. apríl

Áætlað er að opna sýninguna í júní 2022 og að hún verði opin fram í september sama ár. „Sýningunni verður dreift víðsvegar um þetta landsvæði, Vestfirði, Strandir og Dalabyggð, og við óskum eftir þátttöku myndlistarfólks á því svæði. Við erum komin með góða skráningu nú þegar. Við auglýstum sýninguna hjá Sambandi íslenskra myndlistarmanna en svo er alltaf möguleiki að myndlistarmenn séu ekki skráðir í það samband og auglýsingin því farið framhjá þeim. Við hvetjum fólk til að sækja um og það verður valið úr umsóknum,“ segir Þórdís og bætir við að hægt sé að sækja um þátttöku til 5. apríl á netfanginu academyofthesenses@gmail. com

Líkar þetta

Fleiri fréttir