Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið verður til húsa í gamla Búnaðarbankahúsinu við Aðalgötu 10 í Stykkishólmi.

Opna í vor nýtt skrifstofu- og frumkvöðlasetur í Stykkishólmi

Einkahlutafélagið Suðureyjar ehf. var stofnað á síðasta ári. Það það markmið að auðvelda frumkvöðlastarf og tækifæri til fjarvinnu, óháð aðsetri vinnuveitanda og stuðla að því að fjölga íbúum Stykkishólms. Félagið hefur tekið á leigu gamla Búnaðarbankahúsið við Aðalgötu 10 í Stykkishólmi. Þar verður boðið upp á snyrtilega starfsaðstöðu, eins konar fyrirtækjahótel, með aðgangi að ljósleiðaratengingu og góðri funda- og kaffiaðstöðu. Í húsinu er gert ráð fyrir að starfsfólk úr ýmsum áttum njóti góðs af samskiptum við hvert annað. Stefnt er á að endurleigja til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla allt rými í húsinu svo að úr verði skrifstofu- og frumkvöðlasetur fyrir allt að 30 starfsmenn. Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði tilbúin til útleigu í maí í vor. Arionbanki seldi húsið í vetur og flytur bankinn starfsemi sína í Skipavíkurhúsið gegnt Bónus í Stykkishólmi seinni hluta apríl .

Halldór Árnason.

Halldór Árnason er í forsvari fyrir Suðureyjar ehf. Hann segir í samtali við Skessuhorn að á næstu vikum og mánuðum sé ráðgert að kynna fyrir brottfluttum Hólmurum þá aðstöðu sem verður í boði í nýja frumkvöðlahúsinu og þeir hvattir til að flytja starfsvettvang sinn og heimili til Stykkishólms. Sjónum verður sérstaklega beint að fólki á aldrinum 25-40 ára. Einnig verður forsvarsmönnum stærri stofnana og tæknifyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu kynntir kostir þess að starfsmenn staðsetji sig í Stykkishólmi og að fyrirtækið taki á leigu starfsaðstöðu þar. Halldór segir Stykkishólmsbæ leggja sitt af mörkum og hafi látið útbúa myndband fyrir vefmiðla og aðra samskiptamiðla, þar sem kynnt er sú fjölbreytta þjónusta sem er í boði í Stykkishólmi. Þar er meðal annars bent á að hitaveita er á sama verði og t.d. á Akranesi og höfuðborgarsvæðinu, Bónusverslun er í bænum, sjúkrahús og heilsugæslu, góðir skólar og meðal annars leikskóli sem tekur börn frá 12 mánaða aldri. Þetta verður allt kynnt í hvatningarbréfi sem sent verður til brottfluttra Hólmara innan tíðar.

Sjá nánar umfjöllun í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir