Nýtt laugarhús tekið að rísa við Hreppslaug

Byrjað var að reisa nýtt laugarhús við Hreppslaug í Skorradal á mánudagsmorgun, 29. mars. Auk þess er búið að steypa nýja potta við laugina. Ungmennafélagið Íslendingur stendur að byggingu hússins en Skorradalshreppur styrkti félagið fyrir framkvæmdunum og Borgarbyggð einnig. „Þetta er 160 fermetra hús, sem er töluvert stærra en það gamla sem var rifið síðasta haust,“ segir Kristján Guðmundsson, formaður Umf. Íslendings, í samtali við Skessuhorn. „Gamla húsið var úr sér gengið á allan hátt en þetta hús mun standast allar nútíma kröfur og verður mun betra hús,“ bætir hann við.

Tryggvi Valur Sæmundsson hjá Hálstaki sá um jarðvegsvinnu fyrir nýja húsið, Steypustöðin reisir einingarnar og PJ byggingar á Hvanneyri sér um tréverk. Aðspurður segist Kristján vona að hægt verði að opna laugina snemma í sumar. „Við munum opna í sumar, spurningin er bara hvenær. Ef allt gengur upp náum við vonandi góðum hluta af sumrinu. Við viljum fyrst og fremst gera þetta vel,“ segir Kristján. Umf. Íslendingur sá að auki um að byggja potta við laugina. „Við steyptum tvo potta sem eru tilbúnir og mikil prýði,“ segir Kristján.

Líkar þetta

Fleiri fréttir