Yngsta fjölskyldan í Bakkakoti; Lilja Rannveig og Ólafur Daði með börnin sín; Hauk Axel þriggja ára og Kristínu Svölu átta mánaða. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Fékk ung brennandi áhuga á pólitík

Nýverið lá ljóst fyrir hvernig röðun efstu manna yrði á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust. Framsóknarflokkurinn reið á vaðið og stóð fyrstur stjórnmálaflokkanna fyrir póstkosningu þar sem tæplega 1200 félagsmenn greiddu atkvæði. Síðan hafa línur tekist að skýrast, meðal annars hjá Samfylkingunni og Pírötum hér í Norðvesturkjördæmi. Í fyrsta sæti á lista Framsóknar verður Stefán Vagn Stefánsson, lögregluvarðstjóri á Sauðárkróki og forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, en í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, kennaranemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún er nú varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi og hefur á kjörtímabilinu tekið sæti á þingi.

Lilja Rannveig er búsett á æskuheimili sínu í Bakkakoti í Stafholtstungum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Þau búa nú í elsta íbúðarhúsinu á bænum, húsi sem Axel og Kristín, langafi og langamma hennar byggðu. Ef fylgi Framsóknarflokksins í kosningunum í haust verður svipað og það var fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum er Lilja Rannveig mögulega á leiðinni á þing. Hún yrði þá um leið í röð yngstu þingmanna, en hún fyllir 25 ára afmælið tíu daga fyrir kjördag í haust. „Iðulega hef ég átt afmæli á réttardaginn, þegar búannir á mínu heimili standa sem hæst. Þegar ég kom í heiminn var pabbi einmitt í leitum og var honum ekið með hraði ofan úr Fornahvammi og á Akranes til að geta verið viðstaddur fæðingu frumburðar síns. Ófáum afmælisdögum 14. september hef ég því varið við réttarvegginn í Þverárrétt. Foreldrar mínir, Kristín Kristjánsdóttir og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, reka fjárbú hér í Bakkakoti, tóku við búi foreldra mömmu, sem aftur tóku við búi af foreldrum afa,“ segir Lilja Rannveig í samtali við Skessuhorn. Sjálf hefur Lilja Rannveig nú stofnað fjölskyldu, er gift Ólafi Daða Birgissyni og saman eiga þau tvö börn; Hauk Axel þriggja ára og Kristínu Svölu átta mánaða. Þau giftu sig um jólin, í miðju kóvíd ástandi, en ætla að blása til stórrar veislu síðar þegar aðstæður leyfa.

Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Lilju Rannveigu á sunnudaginn. Á næstu vikum og misserum mun í Skessuhorni verða rætt við þá frambjóðendur sem kalla eftir stuðningi til að gegna þeim mikilvægu störfum að verða fulltrúar Norðvesturkjördæmis á þingi í kosningunum 25. september.

Sjá Skessuhorn vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir