Gömul fjárhús á bænum Lækjarbug gjörónýt eftir bruna

Slökkvilið Borgarbyggðar var laust eftir klukkan 22 í gærkvöldi kallað út vegna bruna á bænum Lækjarbug á Mýrum. Tiltækt lið frá öllum starfsstöðvum slökkviliðsins fór á vettvang. Að sögn Heiðar Arnar Jónssonar varaslökkviliðsstjóra var eldur laus í gömlum fjárhúsum sem að hluta voru nýtt sem verkstæði. Áður en eldurinn kom upp hafði verið unnið við viðgerðir og neisti hlaupið í bensín eða önnur eldfim efni. Eldurinn breiddist því hratt út og eru húsin gjörónýt ásamt tækjum, bílum og verkfærum sem í þeim voru. Áfast fjárhúsunum var hlaða full af heyi og segir Heiðar Örn að mestan tíma hafi tekið að slökkva eldinn í því. Fólk var ekki í hættu og engar skepnur voru í húsunum. Slökkvistarfi lauk undir morgun og voru slökkviliðsmenn í Borgarnesi komnir heim um klukkan 6:30.

Líkar þetta

Fleiri fréttir