Fræðsla og fjör hjá sjöttu bekkingum á Smiðjuloftinu

Í marsmánuði hefur Smiðjuloftið, afþreyingarsetur á Akranesi, staðið fyrir menningar- og íþróttaheimsóknum allra nemenda í 6. bekkjum grunnskólanna á Akranesi. Smiðjuloftið er í eigu þeirra Valgerðar Jónsdóttur tónmenntakennara og Þórðar Sævarssonar íþrótta- og heilsufræðings. Þau hjónin hafa undanfarin ár starfrækt tónlistarverkefnið „Travel Tunes Iceland“ þar sem þau kynna íslensk þjóðlög fyrir ferðafólki. Krakkarnir fengu því fræðslu um íslenska þjóðlagaarfinn og tóku þátt í tónlistarvinnu með hljóðfæraleik og söng. Þá var öllum boðið að spreyta sig í klifri á átta metra háum klifurvegg Smiðjuloftsins.

„Heimsóknirnar hafa gengið eins og í sögu og nemendurnir verið til fyrirmyndar, áhugasamir, fróðleiksfúsir og notið sín vel,“ segir Valgerður. Þau hjónin vilja þakka öllum nemendum og starfsfólki fyrir góða samveru. Einnig senda þau Akraneskaupstað þakkir fyrir að gera þessar heimsóknir mögulegar, en verkefnið hlaut menningarstyrk frá sveitarfélaginu fyrr í vetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir