Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Lilja Björg Ágústsdóttir, formaður stjórnar SSV við undirritun samnings. Ljósm. Stjórnarráð Íslands

Áfangastaðastofa á Vesturlandi

Í marsmánuði hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirritað þrjá samninga um stofnun áfangastaðastofa. Þar af undirritaði hún samning um Áfangastaðastofu á Vesturlandi mánudaginn 1. mars. „Það er spennandi að fylgjast með áfangastaðastofunum verða að veruleika um land allt. Íslensk ferðaþjónusta á vissulega undir högg að sækja um þessar mundir, en það er táknrænt að við stígum skref sem þessi, sem munu stuðla að áframhaldandi uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu á heildstæðum grunni um land allt, á þeim tíma. Þannig komum við enn sterkari til leiks í endurreisnartímabilið,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Áfangastaðastofur hafa það hlutverk að styðja við ferðaþjónustu í landshlutunum og gæta þess að hún þróist í takt við það sem heimafólk vill með sjálfbærni að leiðarljósi. „Markmið með stofnun áfangastaðastofa er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi hennar á viðkomandi landssvæði. Áfangastaðastofa starfar í umboði sveitarfélaga viðkomandi landsvæðis og er samstarfsvettvangur viðkomandi sveitarfélaga, ríkis og ferðaþjónustunnar,“ segir í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

Líkar þetta

Fleiri fréttir