Viktor Sigurgeirsson bifvélavirki er nú að opna nýtt verkstæði á Akranesi. Ljósm. Skessuhorn/mm.

HÁ bílar er nýtt bifreiðaverkstæði á Akranesi

„Ég tel að það sé alveg nægur markaður fyrir nýtt bifreiðaverkstæði á Akranesi og er bjartsýnn á framhaldið,” segir Viktor Sigurgeirsson bifvélavirki sem er nú eftir páska að opna nýtt bifreiðaverkstæði að Dalbraut 16 á Akranesi. Nefnist það HÁ bílar. Verður starfsemin í hluta þess húsnæðis sem áður hýsti bifreiðaverkstæðið Brautina. Viktor var að koma sér fyrir á nýja staðnum þegar Skessuhorn leit við hjá honum fyrir skömmu.

„Þetta verður verkstæði fyrir almennar viðgerðir fyrir allar tegundir bifreiða. Ég er núna að vinna í því að auka við tækjakostinn og fæ nýja og fullkomna tölvu til viðgerðanna á næstunni og auk þess er ég að bæta við verkfærakostinn. Þannig að verkstæðið verður af fullkomnustu gerð. Auk þess er ég að koma mér upp viðskiptasamböndum við umboð og varahlutasala sem fylgir slíkum rekstri.“

Viktor er enginn nýgræðingur í bifreiðaviðgerðum. Hann lærði iðnina hjá föður sínum, Sigurgeiri Sveinssyni, sem rak um árabil bifreiðaverkstæðið Brautina ásamt konu sinni Erlu Karlsdóttur. Hann starfaði þar ásamt bræðrum sínum Jónasi og Karli um árabil. Eftir að Brautin hætti starfsemi hélt Viktor áfram að vinna við viðgerðir, nú síðast hjá bílaverkstæði Hjalta. „Ég var hjá Hjalta í um tvö ár og þar var mjög gott að starfa, en það blundaði alltaf í manni að fara í sjálfstæðan rekstur þar sem ég ætti sjálfur húsnæði undir starfsemina var þetta því raunhæft næsta skref hjá mér,” sagði Viktor í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir