Valgarður Lyngdal er nýr oddviti Samfylkingar í NV kjördæmi

Kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var haldið í dag. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslistanum en raðað var eftir paralista fyrirkomulagi. Eins og kunnugt er hafði Guðjón S Brjánsson þingmaður flokksins í kjördæminu gefið það út að hann sæktist ekki eftir endurkjöri fyrir kosningarnar í haust.

Alls greiddu 94 atkvæði í kosningunni. Nýr oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi er Valgarður Lyngdal Jónsson, grunnskólakennari og oddviti Samfylkingarinnar og forseti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar. Hann hlaut 51 atkvæði, en Gunnar Tryggvason varð næstur með 26 atkvæði. Sjö aðrir frambjóðendur fengu samtals 17 atkvæði. Jónína Björg Magnúsdóttir á Akranesi var sjálfkjörin í 2. sætið þar sem hún var eina konan í hópi frambjóðenda. Í þriðja sæti varð Sigurður Orri Kristjánsson í Reykjavík, sem á rætur sínar m.a. í Stykkishólmi.

„Ég er gríðarlega þakklátur fyrir traustið og stuðninginn sem ég fékk og hlakka til að hefjast handa við að vinna jafnaðarstefnunni og stefnumálum Samfylkingarinnar fylgi í kjördæminu,“ sagði Valgarður í yfirlýsingu sem hann gaf út á facebook síðu sinni. „Með ykkur getur þetta ekki orðið annað en skemmtilegt,“ sagði hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir