Flóahverfi á Akranesi. Ljósmynd og möguleg atvinnuhúsabyggð. Mynd: Akraneskaupstaður.

Í Flóahverfi á Akranesi verða vistvænir iðngarðar

Skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar hefur falið bæjarstjóra ásamt skipulagsfulltrúa bæjarins að hafa samráð við nokkra aðila varðandi þróun og framtíðarhugmyndir um iðnaðarsvæðið Flóahverfi á Akranesi. Að sögn Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra hefur bærinn nýlega sett af stað vefinn www.300akranes.is sem ætlaður er til markaðssetningar á atvinnu- og íbúðarhúsnæði í bæjarfélaginu. Tilganginn með vefnum 300akranes.is segir Sævar Freyr vera annars vegar að gefa fyrirtækjum sem þegar hafa starfsemi á Akranesi möguleika á að færa sig um set í nýtt hverfi og hins vegar að laða að fyrirtæki annars staðar frá. Hann bendir á að þegar sé verið að deiliskipuleggja stór íbúðarhverfi á höfuðborgarsvæðinu sem í dag eru iðnaðarhverfi og fyrirtæki þar þurfi því að finna sér nýja staðsetningu. Þar komi Flóahverfi mjög sterkt inn sem valkostur.

Þegar hefur eitt fyrirtæki, Efnagreining ehf, hafið starfsemi í Flóahverfi og bygging starfsstöðvar Veitna ohf. á næstu lóð við hliðina er vel á veg komin. Að sögn Sævars er talsverður áhugi á iðnaðarsvæðinu, margir hafa sótt um lóðir og fengið úthlutað. Þar á meðal eru fyrirtæki sem ætla sér að byggja atvinnuhúsnæði bæði til sölu og til þess að leigja út. Þessi fyrirtæki eru Merkjaklöpp ehf., Votaberg ehf., G.J.B. ehf., og Sjammi ehf. Verið sé að skoða hvernig megi útfæra samstarf við þessi fyrirtæki.

Flóahverfið verði vistvænn iðngarður

Sævar Freyr segir að aðferðafræðin sem bæjaryfirvöld vilja innleiða sé að þróa Flóahverfið sem vistvæna iðngarða (e. Eco Industrial Park). Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á heildrænni nálgun á uppbyggingu iðnaðarsvæða, með sjálfbærni að leiðarljósi. Mótaður er ákveðinn rammi um uppbyggingu svæðisins og lagður grunnur að víðtæku samstarfi fyrirtækja og ýmissa hagaðila sem samnýta innviði, aðföng og hráefnastrauma sína til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu og styðja við nýsköpun. Uppbygging vistvænna iðngarða er í mikilli sókn á heimsvísu sem aðferð framleiðslufyrirtækja til að stuðla að aukinni sjálfbærni og til að ýta undir getu þeirra til að starfa eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Í því felst meðal annars að við þróun svæðisins sé sjálfbærni höfð að leiðarljósi og að hún styðji við jákvæða samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins og að iðngarðar byggist upp í góðri sátt. Það geti til að mynda falið í sér að matvælafyrirtæki geti treyst því að ekki komi mengandi iðnaður í næsta nágrenni. Regluverkið um vistvæna iðngarða er afurð samvinnu Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNIDO, Alþjóðabankans og Þýsku Þróunarsamvinnustofnunarinnar GIZ.

Gatnagerðargjöldum frestað í tvö ár

Regluverk sem nýlega hefur verið samþykkt í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar varðandi úthlutanir og greiðslu gatnagerðargjalda í Flóahverfi segir Sævar Freyr vera afar hvetjandi fyrir fyrirtæki. Í því felst að þeir sem tryggja sér lóð geta gert sérstakan samning við bæjarfélagið sem gerir þeim kleift að fresta greiðslu gatnagerðargjalda í tvö ár. Samningurinn gerir svo kröfu um að framkvæmdir hefjist strax, verkhlutum verið lokið miðað við fyrirfram ákveðnar, tímasettar vörður og að húsnæði sé tilbúið og starfsemi hafin innan tveggja ára. Annars gjaldfalla gjöldin og verða innheimt með álagi. Þetta fyrirkomulag er meðal annars hugsað til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem fá úthlutað lóð geti ekki dregið úr hömlu að hefja og eða ljúka framkvæmdum við bygginguna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir