Svipmynd tekin upp núverandi urðunarrein í Fíflholtum. Ljósm. Skessuhorn/mm

Skipulagsstofnun gefur jákvæða umsögn um aukna sorpurðun í Fíflholtum

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á matsskýrslu Sorpurðunar Vesturlands þar sem farið er fram á aukið starfsleyfi til urðunar sorps í Fíflholtum á Mýrum. Núverandi starfsleyfi gerir ráð fyrir að urða megi allt að 15 þúsund tonn á ári, en sótt var um stækkun á því í 25 þúsund tonn. Undanfarin tvö ár hefur verið urðað meira en starfsleyfið heimilar og því ákvað stjórn Sorpurðunar og sveitarfélögin sem að henni standa að sækja um aukið starfsleyfi. „Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt,“ segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Engu að síður gerir stofnunin athugasemdir við ýmislegt í starfseminni og tekur um leið undir með þeim sem skiluðu inn athugasemdum svo sem um fok og lyktarmengun. Nefnt er að framfylgja verði frekari mótvægisaðgerðum sem tilgreindar eru í matsskýrslu, einkum með því að þekja úrgang jafnóðum og hann er urðaður og draga úr urðun lífræns úrgangs. Þannig megi draga úr ágangi fugla og annarra dýra í úrganginn. „Nánari ákvæði um mótvægisaðgerðirnar og framfylgd þeirra þarf að setja fram í starfsleyfi,“ segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Í matsskýrslu Sorpurðunar Vesturlands er ekki gert ráð fyrir stækkun urðunarsvæðisins eða urðunarreina og að ekki verði um að ræða neinar jarðvegsframkvæmdir og því fyrst og fremst um að ræða breytingar á starfsemi. „Flest bendir til þess að á næstu árum muni draga hratt úr urðun vegna breyttra áherslna íslenskra stjórnvalda og innleiðingar úrgangstilskipana en engu að síður er talið nauðsynlegt að gera ráð fyrir að urðun í Fíflholtum verði enn um sinn meiri en sem nemur því magni sem gert var ráð fyrir við ofangreindum málsmeðferðum árið 1997 og 2012 og gert er ráð fyrir í gildandi starfsleyfi.“ Loks segir: „Skipulagsstofnun telur mikilvægt að fyrirhuguð aukning [á sorpurðun, innsk. blm.] verði einungis skammtímalausn meðan að unnið sé að því að finna lausn á úrgangsmálum sem samrýmist fyrrnefndri stefnumörkun stjórnvalda þannig að til lengri tíma verði dregið verulega úr urðun og henni hætt á lífrænum úrgangi.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir