Nýkomnir að landi og löndun að hefjast. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Kom drekkhlaðinn að landi með boltaþorsk

Eymar Einarsson útgerðarmaður og menn hans á Ebba AK gera það ekki endasleppt á þorskveiðunum. Hafa þeir fiskað afar vel í netin í róðrum í mars, en metið var þó kirfilega slegið í gær þegar þeir komu að landi með fulllestaðan bát af stórþorski, alls 22,6 tonn. Aflann fengu þeir í net á fyrrum siglingarleið Akraborgarinnar úti af minni Hvalfjarðar, en Eymar segist hafa lagt fimm trossur og að uppistaðan í aflanum hafi fengist í tvær síðustu trossurnar sem þeir drógu. Byrjuðu þeir að draga netin klukkan átta um morguninn og voru ekki búnir að losa úr þeirri síðustu fyrr en tólf tímum síðar. Megin uppistaða aflans var átta kílóa plús þorskur og meðalvigtin vel yfir tíu kíló. Fiskurinn er afar vel haldinn, hefur verið í loðnu en er nú staddur upp undir kálgarðana þar sem hann er í tilhugalífinu um þessar mundir. Aflinn var allur seldur á markað og fengust ríflega 300 krónur fyrir kílóið. Aflaverðmætið er því á sjöundu milljón króna.

Ásamt Eymar í þessari metsjóferð voru Guðmundur Sigurbjörnsson og Marinó Freyr Jóhannesson. Að vonum voru þeir dálítið lúnir en glaðir í bragði þegar komið var að landi, en hófu strax löndun á aflanum. Í lestinni á Ebbanum voru 16 stór kör og um 60 cm bil frá efri brún karanna og upp í dekk. Ofan á körunum flæddi fiskur og upp í lúguop og auk þess ein átta full kör á dekkinu. Það voru því mörg handtökin að flokka aflann og koma honum í kör til að geta híft frá borði. Hluti aflans var svo flokkaður uppi á bryggju og þaðan ekið með körin á markaðinn. Sjálfur stýrði Eymar þessari vinnu; var á krananum og sagði til milli þess sem hann mokaði ís ofan í körin um borð.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir