Stórhertar sóttvarnaraðgerðir taka gildi strax á miðnætti

Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar kynnir nú á blaðamannafundi í Hörpu í Reykjavík stórhertar aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn enn frekari útbreiðslu breska afbrigðis kórónaveirunnar. Fjölmargar hömlur taka gildi strax á miðnætti í kvöld. Meðal þess sem ákveðið er er að allt staðnám í grunn,- framhalds- og háskólum leggst af frá og með nú og fram að páskaleyfi og þar af leiðandi fram yfir páska. Leikskólum verður heimilt að hafa opið. Samkomutakmarkanir taka mið af tíu manns og aðeins börn fædd 2014 og síðar undanþegin, 30 mega koma saman í kirkjulegum athöfnum, að hámarki fimmtíu mega vera í stærstu verslunum og áfram mætti telja.

Líkamsræktarstöðvum, sund- og baðstöðum verður lokað og allt íþróttastarf leggst af næstu þrjár vikur hið minnsta. Sviðslistum- og kvikmyndahúsum verður lokað. Skemmtistöðum og vínveitingastöðum verður lokað. Veitingastaðir mega hafa opið til 22 á kvöldin og mega taka á móti gestum til klukkan 21. Öll starfsemi sem ekki ekki rúmast innan takmarkana verður stöðvuð. Er tilgangurinn með hinum hertu aðgerðum að stíga fast til jarðar í því skyni að komast fyrir þessa fjórðu bylgju faraldursins á sem allra skemmstum tíma.

Rögnvaldur Ólafsson hjá Almannavörnum sagði að væntanlega verði rútuferðir að gossvæðinu slegnar út af borðinu eins og staðan er núna.

Þá tilkynnti heilbrigðisráðherra að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leyfa notkun Astra Zenca bólusefnisins og verður lögð áhersla á að bólustetja heilbrigðisstarsfólk og yfir 70 ára einstaklinga.

 

Reglurnar í heild sinni eru hér fyrir neðan:

COVID-19: Stórhertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti – fjöldatakmörk 10 manns

Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir á landsvísu taka gildi á miðnætti í kvöld. Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginregla og aðeins börn fædd 2014 og síðar verða þar undanskilin. Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við. Margvísleg starfsemi sem rúmast ekki innan reglu um 10 manna fjöldatakmörkun verður stöðvuð. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir byggist á tillögum sóttvarnalæknis um að grípa tafarlaust til ráðstafana vegna hópsýkinga innanlands að undanförnu til að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar. Hertar reglur munu gilda í 3 vikur.

Hópsýkingarnar að undanförnu eru allar af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að hertar aðgerðir taka nú til barna allt frá grunnskólaaldri þar sem sýnt þykir að breska afbrigðið veldur meiri einkennum hjá eldri börnum en önnur afbrigði veirunnar. Að öðru leyti er í meginatriðum um að ræða sömu reglur í megindráttum og tóku gildi 31. október á liðnu ári og gáfust vel til að kveða niður þriðju bylgju faraldursins hér á landi.

Helstu reglur sem taka gildi á miðnætti:

Nándarregla verður áfram 2 metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin 2 metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

 Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2015 eða fyrr.

  • Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
  • Sund- og baðstaðir lokaðir.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
  • Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.
  • Sviðslistir og sambærileg starfsemi, svo sem bíó, er óheimil.
  • Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar lokaðir.
  • Ökunám og flugnám með kennara óheimilt.
  • Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 22, með að hámarki 20 gesti í rými sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til kl. 21.00.
  • Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
  • Starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi verður áfram heimil.

Skólahald

Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað frá og með morgundeginum og þar til hefðbundið páskafrí tekur við. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum.

Heilbrigðisráðuneytið
24. mars 2021

Líkar þetta

Fleiri fréttir