Sterkar vísbendingar um að ný bylgja Covid-19 sé hafin

Margt bendir til þess að ný bylgja kórónuveirufaraldursins sé að hefjast eftir að fjöldi smita greindist í gær. Flest smit voru í hópi grunnskólabarna í Reykjavík. Nú eru 75 í einangrun með veiruna á landsvísu og 454 í sóttkví. Tveir voru í sóttkví á Vesturlandi á mánudaginn; einn í Stykkishólmi og annar á Akranesi.

Innanlandssmitin voru 17 í gær og þar af voru þrír utan sóttkvíar. Landamærasmit voru fimm. Líkur eru taldar á að flest smitin séu að hinu svokallaða breska afbrigði, sem hefur verið drifkrafturinn á bakvið bylgjur smita víða á meginlandi Evrópu.

Ríkisstjórnin mun funda um stöðu mála eftir hádegi í dag en ákveðið var að fresta upplýsingafundi sem sem vera átti klukkan 11 í morgun og síðar klukkan 14, en hefur nú verið afboðaður. Fastlega má búast við að boðaðar verði hertar aðgerðir vegna stöðu mála. Núverandi sóttvarnareglur áttu að gilda til 9. apríl næstkomandi.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist í viðtal við Vísi.is fyrr í dag telja að fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins sé hafin hér á landi. Hann segir að tími sé kominn til þess að skella öllu í lás og vill sjá sambærilegar samkomutakmarkanir og voru þegar þær voru sem harðastar fyrr í vetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir