Horft til norðurs yfir Grjótháls. Bærinn Grjót í Þverárhlíð í forgrunni. Ljósm. úr safni/ Mats Wibe Lund.

Lýsa eindreginni andstöðu við vindmyllugarð á Grjóthálsi

Íbúar á 14 bæjum í Norðurárdal, Þverárhlíð og Stafholtstungum komu saman á íbúafundi að Skarðshömrum í Norðurárdal síðastliðinn föstudag. Tilefnið var að að ræða og bregðast við auglýsingu Borgarbyggðar um skipulags- og matslýsingu vegna aðalskipulagsbreytingar í landi jarðanna Hafþórsstaða í Norðurárdal og Sigmundarstaða í Þverárhlíð. Samþykkt var ályktun þar sem lýst er eindreginni andstöðu við vindmyllugarð á Grjóthálsi. Var henni komið til sveitarstjórnar í dag.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns kom fram á fundinum að íbúar lýstu þungum áhyggjum af fyrirhugðum framkvæmdum sem óumdeilanlega komi til með að hafa áhrif á dýralíf, valda sjón- og hljóðmengun ásamt því að hafa áhrif á verð fasteigna. Þá segja þeir mikla hagsmuni í húfi í ljósi þess að tvær af perlum Borgarfjarðar, veiðiárnar Norðurá og Þverá, renna í nágrenninu. Kom fram á fundinum að framkvæmd af þessu tagi kæmi til með að skerða möguleika íbúa til atvinnutækifæra á öðrum sviðum, svo sem við ferðaþjónustu eða landbúnað, því rannsóknir hafa sýnt fram á að hljóðbylgjur vindmyllanna hafa raunveruleg áhrif á dýr og kannanir sýna að fólk finnur fyrir neikvæðum áhrifum af þeim. Þá kom fram að mögulegar tekjur sveitarfélagsins af framkvæmdunum koma til með að verða óverulegar og í því samhengi var bent á að þær koma til með að jafnast á við útsvar þriggja til fimm fjöldskyldna. Loks var á það bent að vindmyllurnar munu koma til með að sjást meira og minna um allt Borgarfjarðarhérað frá Arnarvatnsheiði í austri og út á Mýrar og í Borgarnes í vestri. Því snertir málefnið marga.

Ályktun send sveitarstjórn

Á íbúafundinum á Skarðshömrum var samþykkt svohljóðandi ályktun sem send var sveitarstjórn, undir fyrirsögninni „Er ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?“

„Fundur íbúa og jarðaeigenda í Norðurárdal, Þverárhlíð og Stafholtstungum ályktar svohljóðandi: Við lýsum yfir eindreginni andstöðu við skipulagningu og uppbyggingu vindmyllusvæðis í bakgarði Norðdælinga, Þverhlíðinga og Stafholtstungna, þeim hraða og þeim skorti á kynningu fyrir íbúa sem einkennt hefur vinnslu þessa máls í sveitarstjórn. Þetta er afar gagnrýnisvert með hliðsjón af umfangi þeirra framkvæmda sem hér um ræðir.

Augljóst er að umhverfisáhrif og ónæði verður gríðarlegt, bæði sjónmengun og hljóðmengun. Nú þegar eru á svæðinu hverfisverndaðar tjarnir og mólendi sem liggur fyrir að virða eigi að vettugi. Óumdeilanlegt er að fuglastofnum á svæðinu stafar hætta af tilætluðum mögulegum framkvæmdum, einkum stórfuglum líkt og haferni og álft. Þá eru ótalin þau neikvæðu áhrif sem framkvæmdir af þessu tagi myndu óhjákvæmilega hafa á eignaverð á svæðinu.

Fundurinn fer fram á að sveitarstjórn Borgarbyggðar fresti frekari ákvörðunum og boði til fundar með íbúum svæðisins um fyrirhugaðar framkvæmdir. Farið er fram á að allir kjörnir fulltrúar sveitastjórnar sitji fundinn.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir