Línulegt samtal um Holtavörðulínu

Landsnet hefur hafið undirbúning að mati á umhverfisáhrifum Holtavörðulínu 1 sem mun liggja frá tengivirkinu á Klafastöðum í Hvalfjarðarsveit að nýju tengivirki sem rísa mun á Holtavörðuheiði. Lagning þessarar línu er mikilvægur hlekkur í endurnýjun á núverandi byggðalínu og verður línan 220 kV raflína, hluti af nýrri kynslóð byggðalínu sem liggja mun allt frá Hvalfirði til Austurlands. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línunnar né staðsetningu tengivirkis á Holtvörðuheiði, en núverandi línur; Hrútatungulína 1 og Vatnshamralína 1, liggja um Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð og Húnaþing vestra. Markmiðið er að auka afhendingaröryggi raforku og afhendingargetu á landinu og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu og eðlilegri þróun byggðar. Lögð er í undirbúningsferlinu áhersla á opið og gegnsætt samtal við hagsmunaaðila og stendur Landsnet fyrir opnum fundi um verkefnið á Facebook síðu fyrirtækisins fimmtudagskvöldið 25. mars.

„Við hvetjum íbúa á svæðinu, sem og aðra sem áhuga hafa, að taka þátt í samráðinu, senda inn ábendingar, mæta á opna fundi sem haldnir verða og taka þátt í samtali og samráði með okkur. Það skiptir máli fyrir samfélagið að sem best sátt náist um uppbyggingu línunnar sem er ætlað að vera hluti af nýrri kynslóð byggðalínu sem fleytir okkur inn í framtíðina,“ skrifaði Elín Sigríður Óladóttir samskiptatjóri Landsnets í aðsendri grein í Skessuhorni í síðustu viku.

Fundurinn verður annað kvöld, fimmtudaginn 25. mars klukkan 20-22, og verður streymt á Facebook síðu Landsnets.

Líkar þetta

Fleiri fréttir