Fengu viðurkenningar fyrir úrvalsmjólk hjá Auðhumlu

Hefð er fyrir því að halda deildarfundi Auðhumlu svf. í marsbyrjun ár hvert. Á síðastliðnu ári var þó beygt út af þeirri venju þar sem fundurinn var haldinn í júníbyrjun vegna Covid-19. Þann 18. mars sl. var deildarfundur Auðhumlu hér á svæðinu haldinn með rafrænu formi.  Svæðið var óvenju stórt sem lá undir fundinum, eða allt frá Mosfellsdal að Skagafirði.  Fundarstjóri ásamt forsvarsmönnum Auðhumlu svf. og MS ehf. voru stödd í fundarherbergi í höfuðstöðvum MS á Bitruhálsi í Reykjavík. Forsvarsmenn fóru yfir drög að ársreikningum félaganna og málefni þeirra. Þá var nýbreytni að kosningar til trúnaðarstarfa fóru fram með rafrænum hætti á fundinum og gengu þær vel fyrir sig.

Að venju voru veittar viðurkenningar til bænda sem höfðu framleitt úrvalsmjólk á árinu 2019. Þeir voru (á svæðinu Snæfellsnes- og Mýrasýsludeild, Borgarfjarðardeild og Hvalfjarðardeild): Hægindi og Brekkukot í Borgarfjarðardeild, Gunnlaugsstaðir, Dalsmynni, Stakkhamar, Syðri-Knarrartunga og Nýja-Búð í Snæfellsnes- og Mýrasýsludeild og Neðri-Háls í Hvalfjarðardeild.

Venja er fyrir að aðalfundur Auðhumlu sé haldinn í apríllok. Hvort það næst og með hvaða hætti ræðst af stöðu heimsfaraldurs, sem er óútreiknanlegur.

 

-Laufey Bjarnadóttir

Líkar þetta

Fleiri fréttir