Hanna Þóra og Kara Sól.

Barnamenningarhátíð á Akranesi í lok apríl

Unnið er að undirbúningi Barnamenningarhátíðar sem haldin verður á Akranesi nú á vordögum. Frumkvæði að hátíðinn er hjá Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Köru Sól Samúelsdóttur en þær eru verknámsnemar í Viðburðarstjórnun í Háskólanum á Hólum. Það er Akraneskaupstaður í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sem standa fyrir barnamenningarhátíð fyrir börn og ungmenni á Akranesi dagana 28.-30. apríl. Vettvangur hátíðarinnar er bærinn allur og leitast er við að nýta spennandi og áhugaverð rými þar sem fjölbreyttir viðburðir fara fram um allan bæ.

„Markmið barnamenningarhátíðar er að efla menningarstarf fyrir börn og ungmenni. Og að gera hana aðgengilega fyrir öll börn. Barnamenningarhátíð er vettvangur þar sem þátttaka barna og ungmenna er lykilatriðið og lögð er áhersla á menningu barna, með börnum og fyrir börn. Menning getur verið svo margt og eru börn sérstaklega hugmyndarík og svo gaman að sjá hvað þau geta búið til margt skemmtileg með hugmyndarfluginu. Menning er ekki bara eitthvað sem við tengjum við myndlist eða tónlist. Hún getur einnig tengst íþróttum barna. Og er það einn vinkillinn á þessa hátið en við viljum hvetja íþróttafélögin að taka við sér og gera eitthvað skemmtilegt þessa daga. Akranes hefur oft verið kallaður íþróttabærinn Akranes og er það því ákveðin menning sem börn fá að njóta hér,“ segja þær Hanna Þóra og Kara Sól.

„Barnamenningarhátíðin verður skemmtileg hátíð með fjölbreyttri afþreyingu og skemmtilegri dagskrá fyrir öll börn og ungmenni,“ segja þær Hanna Þóra og Kara Sól en þær eru vekefnastjórar hátíðarinnar í ár en undirbúningur að hátíðinni er hluti af þeirra námi og vinna í nánu samstarfi við Akraneskaupstað. „Við hvetjum alla sem starfa með börnum að virkja þau til að taka þátt hvort sem það er að búa til einhvern viðburð, listsýningu eða einfaldlega að koma og vera áheyrandi/horfandi. Við viljum að lokum vekja athygli á ljósmyndakeppni sem Skessuhorn ætlar að standa fyrir í samstarfi við hátíðina. Keppnin er fyrir börn á öllum aldri og er yfirskrift keppninar ,,Náttúran að vori.“ Myndunum skal skila inn á .jpg formati á skessuhorn@skessuhorn.is fyrir 20. apríl næstkomandi. Dómnefnd á ritstjórn Skessuhorns mun velja myndir í 1., 2. og 3. sæti og eru peningarverðlaun 15, 10 og 5 þúsund krónur. Þá verða einnig tekin viðtal við þau börn sem vinna og myndirnar og viðtalið birt í Skessuhorni miðvikudaginn 28. apríl 2021.

„Full mótuð dagskrá verður svo kynnt síðar þar sem við vinnum hörðum höndum við að móta hana. Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni og erum við vongóðar um að bæjarfélagið taki við sér og geri þessa daga skemmtilega og áhugaverða fyrir börnin þrátt fyrir stuttan fyrirvara. Ef einhvern tímann er þörf á að brjóta upp dagana hjá börnunum þá er það á þessum fordæmalausu tímum Covids. Ef það eru einhverja spurningar eða ef ykkur langar að taka þátt í hátíðinni með einhvern viðburð sendið þá tölvupóst á netfangið mannlif@akranes.is“ segja þær Hanna Þóra og Kara Sól.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.