Gunnar Örn Jónsson er nýr lögreglustjóri á Vesturlandi. Ljósm. af vef Stjórnarráðsins.

Gunnar Örn Jónsson er nýr lögreglustjóri á Vesturlandi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra, í embætti lögreglustjórans á Vesturlandi frá 7. apríl næstkomandi. Gunnar Örn var frá árinu 2015 yfirmaður ákærusviðs við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi og staðgengill lögreglustjóra, þar til að hann tók við embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra árið 2017. Hann útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og öðlaðist málflutningsréttindi 2005. Gunnar Örn hefur sótt ýmis námskeið hjá Lögregluskóla ríkisins og lokið námskeiði í aðgerðastjórnun Almannavarna.

Gunnar hefur m.a. starfað hjá sýslumanns- og lögreglustjóraembættinu á Selfossi og síðar lögreglustjóranum á Suðurlandi frá 2004 til 2014, þar af sem staðgengill sýslumanns og síðar lögreglustjóra frá árinu 2008 og sem yfirmaður ákærusviðs embættisins frá 2015. Hann starfaði sem löglærður fulltrúi sýslumannsins á Selfossi frá 2004 til ársins 2014, þar af sem staðgengill sýslumanns frá 2008.

Í samtali við Skessuhorn segir Gunnar Örn að hið nýja starf leggist afar vel í hann og kveðst hann hlakka mikið til þess að kynnast góðu samstarfsfólki. Hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra segir Gunnar Örn að mikil áhersla hafi verið lögð á umferðarmál og skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við þau enda hafi náðst mikill árangur við fækkun slysa á undanförnum árum. Gunnar Örn segir að eðli málsins samkvæmt séu embættin ólík með ýmislegt, til að mynda séu lögreglustöðvarnar sex á Vesturlandi en tvær á Norðurlandi vestra, embættið á Vesturlandi víðfeðmt og mannmargt og segist hann ætla að gefa sér góðan tíma til þess að setja sig inn í málin í nýju embætti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir