Fresta hátíðarhöldum vegna tíu ára afmælis Fornbílafjelags

Allt frá því Covid-19 veiran kom upp hér á landi hefur starfsemi Fornbílafjelags Borgarfjarðar í Brákarey verið í lágmarki. Núverandi reglur um samkomutakmarkanir gilda til 9. apríl en í þeim segir m.a. að hámarksfjöldi einstaklinga í sama rými sé 50 með ákveðnum takmörkunum, bæði í opinberu rými og í einkarými. Þetta gerir það að verkum að hátíðarhöldum vegna tíu ára afmælis félagsins hefur verið slegið á frest, en afmælisdagurinn er á morgun, 24. mars. Félagsmenn eru rúmlega 200 í dag og reiknar Skúli G Ingvarsson formaður félagsins með að fleiri en 50 hefðu viljað koma saman og samgleðjast á þessum tímamótum. „Stjórnin hefur því ákveðið að ekki verði boðað til fagnaðar á afmælisdaginn sjálfan. Við tökum ákvörðun um dagsetningu þegar fyrir liggur með þær reglur sem taka gildi eftir 9. apríl,“ segir Skúli.

Eins og mörgum er kunnugt var öllu húsnæði Borgarbyggðar að Brákarbraut 25 og 27 lokað í febrúar með skömmum fyrirvara. Fram kemur í bréfi Skúla til félagsmanna að úttekt frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun liggi fyrir og í framhaldi af því hafi sveitarfélagið samið við Verkís um úttekt á húsnæðinu og kostnaðarmat á þeim lagfæringum sem þarf að fara í til að það uppfylli þær kröfur sem byggja á lögum um brunavarnir og skilmála byggingareglugerðar. Vinnu við úttekt á að ljúka föstudaginn 26. mars. „Í kjölfar þess getur sveitarfélagið, í samráði við leigjendur, tekið ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti húsnæðið verði lagfært. Þegar skýrslurnar liggja fyrir mun verða boðað til fundar með leigjendum í húsnæðinu og fara yfir möguleikana í stöðunni,“ segir Skúli. Hann bætir við að komið hafi upp sú hugmynd af sameina afmælisfagnað félagsins og aðalfund sem halda skal fyrir lok apríl ár hvert. Samkomutakmarkanir þá munu segja til um hvort það verður framkvæmanlegt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir