Búðardalur. Ljósm. sm.

Ræða sameiningarmál við nágranna í vestri og austri

Verkefnishópur á vegum Dalabyggðar lagði það til við sveitarstjórn Dalabyggðar að annars vegar sveitarstjórn Húnaþings vestra og hins vegar sveitarstjórnum Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar verði boðið til fundar til að ræða hvort hefja skuli viðræður um mögulega sameiningu við Dalabyggð. Sveitarfélag með sameingu Dalabyggðar, Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hefði 1.936 íbúa en í sameinuðu sveitarfélagi Dalabyggðar og Húnaþings vestra yrði íbúafjöldinn 1.854. Alls voru sex ólíkir sameiningarvalkostir metnir í vinnu verkefnishópsins og skoruðu fyrrgreindar leiðir hæst í könnun sem gerð var meðal íbúa. Í verkefnishópnum sátu Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti, Kristján Sturluson sveitarstjóri og Skúli Hreinn Guðbjörnsson formaður byggðaráðs en starfsmaður hópsins var Jóhanna María Sigmundsdóttir verkefnisstjóri.

Farið var í þessa vinnu vegna þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem meðal annars felur í sér stefnu um að lágmarksíbúafjöldi verði settur í lög og stuðningur við sameiningar stóraukinn. Nýverið boðaði svo Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála að líklega muni hann falla frá fyrirætlunum um skilyrtan lágmarks íbúafjölda í sveitarfélögum. Því verður ekki krafist að sveitarfélög nái þúsund íbúa marki 2026.

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti á fundi sínum 11. mars síðastliðinn að leiði fundir með Stykkishólmi og Helgafellssveit annars vegar og Húnaþingi vestra hins vegar í ljós að vilji sé til sameiningarviðræðna verði tekin afstaða til þess hvort hafnar verði formlegar eða óformlegar sameiningarviðræður. Þá verði ákveðinn tímarammi fyrir þær viðræður og óskað eftir framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að styðja við verkefnið. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða þessa afgreiðslu. Í kjölfarið var fyrrgreindum sveitarfélögum send bréf með beiðni um viðræður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir