Svipmynd af svæðinu í gærkvöldi. Ljósm. Landsbjörg.

Landsbjargarfólk bjargaði tugum úr ógöngum á gosslóðum

Þúsundir Íslendinga hafa farið á gosstöðvarnar í Geldingadal á Reykjanesi frá því byrjaði að gjósa á föstudagskvöld. Flestir hafa notið þess stórfengleika sem við blasti, vel búnir, í góðu formi og búnir nesti. Síðdegis í gær var stöðugur straumur fólks að gosstöðvunum og um tíma talið að um þrjú þúsund manns hafi verið á svæðinu. Einhver hafði á orði að; „það vantaði bara Ingó og Tuborgtjaldið til að fullkomna þjóðhátíðarstemninguna.“

Veður tók að versna á gosstöðvunum í gærkvöldi og nótt, eins og spáð hafði verið.  Fjöldi fólks var þá enn á svæðinu og sá lögregla og Landsbjörg ástæðu til að senda út smáskilaboð í alla síma á svæðinu þar sem sagði; „Allir heim!“ Björgunar- og eftirlitsaðilar sáu að fjöldi fólks hafði ekki skilað sér í bíla sína og var í greinilegri hættu vegna veðurs. Björgunarsveitarfólk með sex- og fjórhjól af öllu sunnan,- suðvestan- og vestanverðu landinu var kallað út laust fyrir miðnætti til leitar og björgunar á fólki. Þá hafði veður versnað á svæðinu í kringum gosstöðvarnar í Geldingadal og veðurspá gerði ráð fyrir versnandi veðri í nótt með hvassviðri, slyddu eða snjókomu. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð í nótt og þangað var farið með um fjörutíu manns í nótt sem hafði örmagnast víðsvegar á svæðinu og björgunarsveitir „slætt upp,“ eins og það var orðað. „Fjöldarhjálparstöðin var opnuð rétt fyrir klukkan eitt í nótt að beðni aðgerðarstjórnar. Tæplega 40 manns í mismunandi ástandi fengu aðstoð í stöðinni. Enginn var í lífshættu. Einn var fluttur með sjúkrabíl úr stöðinni vegna meiðsla. Allir voru farnir rétt fyrir klukkan 6 í morgun,“ sagði í tilkynningu Rauða krossi Íslands í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu vöktuðu björgunarsveitir gosstöðvarnar og gönguleiðirnar að þeim allan sunnudaginn og komu fólki til aðstoðar. Í gærkvöldi fjölgaði svo verkefnum þeirra til muna og hafði tugum einstaklinga verið komið til aðstoðar frá því seinni partinn í gær og til miðnættis. Meirihluti þeirra sem þurfa aðstoð voru örmagna eftir langa göngu og nokkrir höfðu villst af leið.

Nú í morgun óskaði lögreglan á Suðurnesjum svo eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til að aðstoða við leit að fólki í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadal. Úr þyrlunni er svipast um á svæðinu allt frá Svartsengi og að upptakasvæðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir