Skjáskot af fundinum fyrr í dag.

Blikur á lofti hvað Covid-19 varðar

Á upplýsingafundi Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra nú í morgun fóru Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir stöðu Covid-19 hér á landi í dag. Þau sögðu öll að nú væru blikur á lofti hvað faraldurinn varðar en fimm greindust með veiruna innanlands í gær og aðeins tveir þeirra voru í sóttkví. Alls greindust sex með Covid-19 hér á landi á laugardag og sunnudag og þrír voru ekki í sóttkví. Allir sem greindust utan sóttkvíar voru einstaklingar innan sömu fjölskyldu en uppruni smitanna er ekki þekktur. Þá sagði Þórólfur að á þriðja hundrað manns þurfi að fara í sóttkví vegna þessara sex smita.

Þórólfur sagðist einnig hafa áhyggjur af þeim fjölda sem er að greinast á landamærunum. Um helgina greindust 19 á landamærunum og voru 15 þeirra með virk smit. Af þessum 19 voru tíu manns sem tilheyrðu áhöfn skips sem kom til Reyðarfjarðar um helgina. Þar voru 19 í áhöfn og þó aðeins tíu hafi greinst með smit telur Þórólfur líklegt að allir séu smitaðir um borð. Áhöfnin er nú í einangrun í skipinu og verður það næstu daga.

Þrír liggja nú á sjúkrahúsi með virk smit, allt fólk á miðjum aldri. Enginn er á gjörgæslu og telur Þórólfur líklegt að þetta séu allt bresku afbrigði veirunnar. Hann segir að nú sé um að ræða samfélagslegt smit sem líkleg sé mun útbreiddara en talið hafði verið. Ef aukning verður á samfélagslegum smitum telur Þórólfur mikilvægt að hann leggi til harðari aðgerða en hann segist þó ekki vera búinn að ákveða það að svo stöddu. Benti hann á að við höfum reynslu sem sýnir að það eina sem dugi gegn samfélagslegum smitum séu samfélagslegar aðgerðir.

Þórólfur sagðist hafa sérstakar áhyggjur af auknum smitum á landamærum og að líkur séu á að uppruni smita í landinu komi frá þeim. Hann sagðist vera með tillögur að frekari aðgerðum á landamærum sem hann mun senda til ráðherra á næstu dögum. Hann sagðist þó ekki tilbúinn að greina frá þeim aðgerðum að svo stöddu. Þó segir hann að ef eigi að taka vottorð gild á landamærum þurfi að breyta okkar nálgun á því. Að lokum sagði Þórólfur okkur standa á krítískum tíma núna hvað Covid-19 varðar hér innanlands. Ákveðin óróamerki séu sem benda til útbreiðslu og að frekari útbreiðsla gæti verið í uppsiglingu. Þá biðlaði hann til fólks að gæta að persónulegum sóttvörnum, að forðast hópamyndanir, að huga að fjarlægðamörkum og að fara í sýnatöku sé fólk með einkenni og halda sér til hlés þar til niðurstaða berst.

Ekki byrjuð að bólusetja aftur með Astra Zeneca

Alma Möller tók undir orð Þórólfs og fór yfir stöðu á bóluefni Astra Zeneca. Hún sagði mat Lyfjastofnunar Evrópu vera að heilt yfir sé ávinningurinn af efninu meiri en áhættan þar sem um sé að ræða sjaldgæfar aukaverkanir. Hún sagði að þessar aukaverkanir kunni þó að vera algengari hjá yngra fólki og kannski einkum konum. Alma sagði að þó hafi margar þjóðir ákveðið að hefja notkun á bóluefninu að nýju þar sem staða kórónuveirufaraldursins sé mjög slæm í þeim löndum. Þá sé ávinningurinn mun meiri en áhættan. Norðurlandaþjóðirnar ákváðu þó allar í sameiningu að rannsaka málið betur og verður því bóluefnið ekki notað hér á landi strax.

Í lok fundar minnti Rögnvaldur á að eitt smit gæti komið af stað nýrri bylgju, það hafi sýnt sig áður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir